Færsluflokkur: Bloggar

Bolvíkingar rúlluðu upp Íslandsmótinu

Best IMG 1964Taflfélag Bolungarvík vann öruggan sigur á Íslandsmóti skákfélaga en síðari hlutinn fór fram um helgina á Akureyri.  Sigur Bolvíkinga er merkilegur en þetta er í fyrsta sinn sem landsbyggðarfélag verður Íslandsmeistari.  Bæði Eyjamenn og Akureyringar tókst það næstum en Vestfirðingarnir fullkomnuðu verkið.

Hellismenn urðu í 2. sæti og Fjölnismenn í 3. sæti en þetta er í fyrsta sinn sem þeir krækja sér í verðlaun i fyrstu deild.  Eyjamenn unnu öruggan sigur í 2. deild, B-sveit Bola í 3. deild og Mátar í 4. deild.  Landsbyggðarfélög unnu því sigur í öllum deildum nema í 4. deild.  Keppnin var að mörgu leyti sögulegt.  Ritstjóri hafði oft rétt fyrir sér í spám en fór einnig alloft með tómt fleipur!

1.       deild

Lokastaðan (haustspá-vorspá)

  1. (1-1) Bolungarvík 44,5 v.
  2. (4-3) Hellir-a 35,5 v.
  3. (3-2) Fjölnir 33 v.
  4. (5-5) Haukar 29 v.
  5. (2-4) TR-a 28,5 v.
  6. (6-7) Hellir-b 22 v.
  7. (7-6) SA-a 18 v.
  8. (8-8) TR-b 13,5 v.

Sigur Bolvíkinga er merkilegur eins og áður sagði.  Fyrsti sigur landsbyggðarfélags.  Fyrir nokkrum árum sagði Halldór Grétar við mig að Bolvíkingar myndu vinna sigur eftir nokkur ár og fara þessa leið en aldrei trúði ég því!  Yfirburðir voru miklir en þeir náðu þó ekki 10 vinninga forskoti eins og ég hafði spáð!  Fyrir lokaumferðina voru Bolar „aðeins" fjórum vinningum fyrir ofan Helli og var dagskipunin hjá Hellismönnum að vinna 6-2 en niðurstaðn varð heldur önnur, 1½-6½!  Bragi Þorfinnsson fékk 6 vinninga í sjö skákum, mátti aðeins lúta í gras fyrir Andra Áss, Helli, sem reyndar Best IMG 1951fékk 5 af 5 og sennilega sá skákmaður sem stóð sig hvað best í keppninni nú.  Bolvíkingar stilltu upp fjórum sterkum stórmeisturum í öllum umferðum.  Athyglisvert er að þeir tóku inn nýtt fjögurra manna sett af erlendum skákmönnum fyrir seinni hlutann!

Hellismenn urðu í 2. sæti og geta vel við unað.  Hellir var eina a-liðið í fyrstu deild sem ekki stillti upp erlendum skákmeisturum og með þeim tefldi stórmeistari í þremur umferðum en að öðru leyti voru Hellismenn stórmeistaralausir.  Sveitin sem keppti í síðari hlutanum var athyglisverð en hana skipðu átta FIDE-meistarar sem er örugglega einsdæmi!  

IMG 2493Fjölnismenn tóku þriðja sætið og ná verðlaunasæti í fyrsta sinn.  Þeir geta einnig vel við unað.  Sveitin var ekki nærri jafn sterk í síðari hlutanum en engu að síður náðu þeir þriðja sætinu örugglega.

Haukamenn urðu í 4. sæti sem einnig er vel að verki staðið.  Liðið náði sér vel á strik á síðari hlutanum.  Eitt atvik varð tengt Haukum.  Þannig er að Kveynis og Ahlander voru tepptir í Kaupmannahöfn þar sem bilun varð í flugfél Iceland Express og komust þeir ekki í tæka tíð til Akureyrar.  Haukamenn óskuðu eftir frestun á forsendum „samgönguerfiðleika" en fyrir því er heimild í reglugerð.  Mótsstjórn hafnaði enda hugsunin á bakvið ákvæðið væntanlega allt önnur en þessi.  Væntanlega hafa menn haft í huga vond veður og þoku eins og margir muna eftir frá Íslandsmótinu 2001 sem fram fór í Eyjum.  Rétt niðurstaða hjá nefndinni að mínu mati og tel ég að samgönguerfiðleika eigi að túlka mjög þröngt og eingöngu þá atvik innanlands.  Íslandsmót Skákfélaga 028

Fráfarandi Íslandsmeistarar Taflfélags Reykjavíkur urðu í fimmta sæti sem er slakasti árangur félagsins frá upphafi á Íslandsmóti skákfélaga en sveitin var aðeins hálfum vinningi fyrir ofan 50%.  Eins og svo oft áður gengur TR-ingum illa að fá sýna sterkustu menn að skákborðinu en með góðri mönnum hefði TR-ingum ekki verið skotaskuld að taka verðlaunasæti.  

IMG 2468B-sveit Hellis náði sjötta sæti og unnu fremur öruggan sigur í b-keppninni þar sem Hellismenn fá nýja andstæðinga að ári.

A-sveit Skákfélags Akureyrar og b-sveit TR féllu.  Líklegt var fyrirfram að b-sveit TR félli en Akureyringar náðu ekki að eiga við b-sveit Hellis sem fékk 4 vinningum meira.  Þetta er í fyrsta skipti sem SA fellur og það á heimavelli og á afmælisári.  Harður heimur þessi skák stundum.   B-sveit TR rak svo lestina og fylgir norðanmönnum í 2. deild að ári.

2.       deild

Lokastaðan:

  1. (1-1) TV 31,5 v.
  2. (4-3) Haukar-b 25,5 v.
  3. (2-2) KR 23 v.
  4. (5-7) SR 21 v.
  5. (3-4) TG 17,5 v.
  6. (8-8) Hellir-c 17 v.
  7. (6-6) SA-b 16,5 v.
  8. (7-5) Selfoss 16 v.

Eyjamenn unnu öruggan sigur í 2. deild og eftir eins árs fjarveru eru þeir komnir á ný í deild þeirra bestu.  Mikill metnaður einkennir Eyjamenn eins og lesa á heimasíðu þeirra og skilst mér á þeir ætli sér stóra hluti að ári.  B-sveit Hauka tók annað sæti eftir keppni við KR.  Haukamenn keppa því b-keppninni ásamt Helli að ári.  Róðurinn verður þungur fyrir þessar sveitir því líklegt er að þær keppi við sex ofursveitir. 

Miklar sveiflur urðu í botnbaráttunni.  Selfyssingar sem voru í fjórða sæti eftir fyrri hlutann urðu neðstir og falla.  Selfyssingar ákváðu nú að nota eingöngu heimamenn, enginn Tiger, og vissu vel að þetta yrði erfitt.  Ég hef samt fullan skilning á þessari ákvörðun enda dýrt fyrir lítil félög og kaupa erlenda stórmeistara.  SA-b fylgir þeim í 3. deild en sú sveit hefur fallið niður um tvær deildir á tveimur árum.  Hellir-c lyfti sér af toppnum og bjargaði sér frá falli.  Það gerðu einnig Reyknesingar sem komu sterkir til leiks og fleyttu sér úr sjötta sæti upp í það fjórða.  Ritstjóri reyndist ekki sannspár því hann spáði Reyknesingum og Hellismönnum falli.

3.       deild

Lokastaðan:

  1. Bolungarvík 37 v.
  2. Akranes 24,5 v.
  3. TR-c 24,5 v.
  4. TG-b 17,5 v.
  5. Hellir-d 16,5 v.
  6. Haukar-c 16,5 v.
  7. TR-d 16 v.
  8. Reykjanesbær-b 15,5 v.

Best IMG 1943Bolvíkingar rusluðu upp þriðju deildinni en með sveitinni tefldu uppaldir Bolvíkingar en engir slíkir voru í a-sveitinni!   Sveitin vann allar viðureignir nema tvær 6-0!  Mikil barátta var um annað sæti á milli Skagamanna og c-sveitar TR.  Sveitirnar höfðu jafn marga vinninga og jafn mörg stig og þurfti þá að kanna innbyrðis úrslit og þar höfðu Skagamenn unnið sigur með minnsta mun og því mátti ekki tæpara standa.  Hin fimm liðin voru svo í stöppu en b-sveit Reyknesinga og d-sveit TR féllu.  Ritstjóri hafði spáð Reyknesingum falli en hélt að d-sveit Helli myndi fara niður í stað d-sveitar TR.  Hellismenn rifu sig hins vegar upp en sveitin var langneðst fyrir seinni hlutann og héldu sér uppi á hálfum vinningi rétt eins og c-sveit iní 2. deild. 

4.       deild

Staða efstu liða í 4. deild:

  1. (1)Mátar 32,5 v.
  2. (2) Bolungarvík-c 28 v.
  3. (3) Víkingaklúbburinn 27,8 v.
  4. (5) SA-c 26,5 v.
  5. (4) TV-b 25,5
  6. KR-c 24,5
  7. KR-b 24 v,
  8. Bolungarvík-d 24 v.
  9. Goðinn 23 v.
  10. SA-e 22,5 v.

Best IMG 1933Í fjórðu deild vann loks lið af höfuðborgarsvæðinu er félagið Taflfélagið Mátar vann öruggan sigur en félagið er annað tveggja félaga úr Garðabænum.  Mátar eru reyndar allir norðlenskir af uppruna.  Hörð barátta var um annað sætið á milli c-sveitar Bolvíkinga og Víkingasveitarinnar og þar höfðu Bolvíkingar betur

 

Að lokum

 

Enn er skemmtilegri keppni lokinni.  Bolvíkingar voru ótvíræðir sigurvegarar helgarinnar en Hellismenn, Fjölnismenn, Haukamenn, Eyjamenn, Skagamenn og Mátar geta unað glaðir við sitt hlutskipti þar sem flest gekk upp hjá þessum félögum.  TR-ingar hafa oft gert betur og úrslitin hljóta að vera gestgjöfunum vonbrigði.  Ég treysti þó að Gylfi og norðanmenn komi sterkir inn að ári.  Norðanmönnum þakka ég góðan viðurgjörning og fyrir góða skipulagningu og þakkir fær einnig SÍ fyrir gott mót.  Skákmönnum þakka ég fyrir góða helgi!  Liverpool og Fulham fá svo sérstakar þakkir fyrir að gera góða helgi enn betri!

Við sjáumst á Reykjavíkurskákmótinu!

Kveðja,

Gunnar Björnsson

Höfundur er ritstjóri www.skak.is og formaður Taflfélagsins Hellis


Allt útlit fyrir yfirburði Bolvíkinga

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram um helgina á Akureyri.  Þetta er í fyrsta sinn í sögu SÍ að ég held að keppni allra deilda fari fram fyrir utan Reykjavíkursvæðið en það hefur alloft gerst að keppni hluta deildanna fari fram út á landi.  Það virðist eiga vel við að flest bendir til þess að Bolvíkingar vinni öruggan sigur á þessu Íslandsmóti sem yrði fyrsti sigur landsbyggðarfélags, þ.e. ef við skilgreinum Garðabæ sem hluta höfuðborgarsvæðisins!

Annars mun samkvæmt heimildum ritstjóra kreppan hafa töluverð áhrif á uppstillingar flestra liðanna sem munu stilla upp færri erlendum skákmeisturum en endranær.  Það mun þó ekki eiga við Bola og Eyjamenn sem munu frekar gefa í en hitt.

1. deild

Staðan: (spá ritstjóra fyrir fyrri hluta í sviga):

  • 1. (1) Taflfélag Bolungarvíkur 24½ v. af 32
  • 2.-3. (3) Skákdeild Fjölnis  21½ v. (6 stig)
  • 2.-3. (4) Taflfélagið Hellir a-sveit 21½ v. (6 stig)
  • 4. (2) Taflfélag Reykjavíkur a-sveit 15½ v.
  • 5. (6) Taflfélagið Hellir b-sveit 11½ v. (3 stig)
  • 6. (7) Skákfélag Akureyrar 11½ v. (2 stig)
  • 7. (5)Skákdeild Hauka 11½ v. (1 stig)
  • 8. (8) Taflfélag Reykjavíkur 10½ v.

Ekkert bendir til annars en stórsigurs Bolanna.  Sannast sagna grunar mig að um að verði að ræða svokallað „overkill", ekki ósvipað því sem Hróksmenn áttu til að nota og að keppnin vinnist með fáheyrðum yfirburðum, jafnvel meira en 10 vinningum  Með Bolunum tefla þrír sterkir Úkraínumenn og á efsta borði teflir Alexander Areshchenko (2673).  Þrjú lið berjast svo um silfur og brons.  Það eru Íslandsmeistarar Taflfélags Reykjavíkur, silfurlið Hellis og Fjölnismenn.  Mér skilst að Fjölnir sé með veikari sveit en í fyrri hlutanum og TR-ingar munu vera útlendingalausir.  Hellismenn munu stilla upp alíslensku liði eitt toppliðanna í báðum hlutum og stefna að því að festa félagið í sessi sem sterkasta „íslenska" liðið!

Ómögulegt er að segja hvernig toppslagurinn endar á milli liðanna þriggja.  TR-ingar eru þó fimm vinningum á eftir hinum sveitunum en eiga þess í stað veikra prógramm og það má alls ekki vanmeta möguleika þeirra nái menn góðri liðsheild.  Ég ætla að spá Fjölni öðru sæti, Helli því þriðja og Íslandsmeisturunum því fjórða. 

Mikil spenna er í botnbaráttunni.  Þar hafa Hellir-b, SA og Haukar 11,5 vinning og TR-b 10,5 vinning.  Ég tel að Haukar muni ekki verða í botnbaráttunni.  Þeir hafa mætt öllum toppsveitunum og eiga eftir að mæta botnsveitunum þremur.  Það eru því hinar sveitirnar þrjár sem berjast.  Allar sveitirnar eiga eftir að mæta mjög svipað sterkum andstæðingum.  Ég ætla að spá að heimavöllurinn skili sínu fyrir Akureyringa og þeir haldi sér uppi.  B-liðin falli og e.t.v. mun það gerast í fyrsta skipti í áratugi að ekkert b-lið verði í fyrstu deild að ári.

En ég spái hrikalegri spennandi fallbaráttu þar sem úrslitin munu ekki ráðast fyrr en á lokasekúndunum. 

Uppfærð spá ritstjóra (vorspá í sviga):

  • 1. (1) Bolungarvík
  • 2. (3) Fjölnir
  • 3. (4) Hellir-a
  • 4. (2) TR-a
  • 5. (5) Haukar
  • 6. (7) SA
  • 7. (6) Hellir-b
  • 8. (8) TR-b

2. deild

Staðan: (spá ritstjóra fyrir fyrri hluta í sviga):

  • 1. (1) Taflfélag Vestmannaeyja 19 v.
  • 2. (4) Skákdeild Hauka b-sveit 16 v.
  • 3. (2) Skákdeild KR 14 v.
  • 4. (7) Skákfélag Selfoss 10½ v. (4 stig)
  • 5. (3) Taflfélag Garðabæjar 10½ v. (3 stig)
  • 6. (5) Skákfélag Reykjanesbæjar 9 v.
  • 7.-8. (6)Skákfélag Akureyrar b-sveit 8½ v. (1 stig)
  • 7.-8. (8) Taflfélagið Hellir c-sveit 8½ v. (1 stig)

Ég spái TV nokkuð öruggum sigri en mér sýnast ummæli formanns TV á vefsíðu félagsins þar sem hann talar um mikið breytt lið gæti bent til þess að liðið þeirra verði sterkt.  Ég spái því að þeir endurheimti sæti sitt í deild þeirra bestu.  Um hitt sætið berjast b-sveit Hauka og KR-ingar.  Hugsanlega gæti b-sveit Hauka verið eina b-sveitin í fyrstu deild að ári!  Ég ætla hins vegar að spá að KR-ingar taki sætið og að fyrsta deildin verði án b-sveita að ári.

Fallbaráttan er mjög spennandi.  Þar berjast fimm lið og tvö þeirra munu falla.  Þarna er afskaplega erfitt um að spá. Hellir er neðstur en á eftir að tefla við þrjú neðstu liðin og því er möguleiki fyrir sveitina að halda sér.  Selfoss á svo t.d. erfiðasta prógrammið eftir að þessum sveitum og gæti hæglega fallið.  Rétt eins og í fyrstu deild verður það fallabaráttan hér sem verður spennandi en síður toppbaráttan.  Ég spái Helli-c og SR falli.  Heimavöllurinn reynist Akureyringum drjúgur og að sveitin bjargi sér frá falli.

Annars held ég að fallbaráttan hér verði hrikalega spennandi rétt eins og fyrstu deild. 

Uppfærð spá ritstjóra (vorspá í sviga):

  • (1) TV
  • (2) KR
  • (4) Haukar-b
  • (3) TG
  • (7) Selfoss
  • (6) SA-b
  • (5) SR-a
  • (8) Hellir-c

3. deild

Staðan: (spá ritstjóra fyrir fyrri hluta í sviga):

  • 1. (1) Taflfélag Bolungarvíkur 21½ v.
  • 2. (3) Taflfélag Reykjavíkur c-sveit 15½ v.
  • 3. (2) Taflfélag Akraness 14½ v.
  • 4. (6) Taflfélag Reykjavíkur d-sveit 10 v.
  • 5. (7) Skákfélag Reykjanesbæjar b-sveit 9½ v.
  • 6. (4) Taflfélag Garðabæjar b-sveit 9 v. (4 stig)
  • 7. (5) Skákdeild Hauka c-sveit 9 v. (3 stig)
  • 8. (8) Taflfélagið Hellir d-sveit 7 v.

Rétt eins og 1. og 2. deild er engin spenna um sjálft toppsætið.  Um það heldur b-sveit Bolanna föstum tökum.  C-sveit TR og Skagamenn berjast svo um hvor sveitin fylgir Bolunum upp.  Ég ætla að spá að Skagamenn fylgi Vestfirðingunum upp.  Fallbaráttan er ekki ósvipuð í 3. deild og í 2. deild nema að staða d-sveitar Hellis er áberandi slökust.  Ég spái því að b-sveit Reyknesinga fylgi þeim niður en rétt eins og 1. og 2. deild bendir flest til þess að fallbaráttan geti verið hrikalega spennandi. 

Uppfærð spá ritstjóra (vorspá í sviga):

  • 1 (1) TB-b
  • 2 (2) TA
  • 3 (3) TR-c
  • 4.(4) TG-b
  • 5 (5) Haukar-c
  • 6 (6) TR-d
  • 7 (7) SR-b
  • 8 (8) Hellir-d

4. deild:

Staða efstu liða:

  •   1 Taflfélagið Mátar 19.5 v.
  •   2 Tf. Bolungarvíkur c-sveit  18 v.
  •   3 Víkingaklúbburinn a-sveit  17.5 v.
  •   4   SA c-sveit  16 v.
  •  5-6  KR - b sveit  15.5 v.
  •  5-6 Sf. Goðinn a-sveit  15.5 v.
  •   7   Skákfélag Vinjar 15 v.
  •  8-9 Taflfélag Vestmannaeyja b  14.5 v.
  •  8-9 Tf. Bolungarvíkur d-sveit  14.5 v.
  • 10-12 KR - c sveit  13.5 v.
  • 10-12 Skákfélag Sauðárkróks  13.5 v.
  • 10-12 Sf. Siglufjarðar  13.5 v.

Í fjórðu deild virðast þrjú lið berjast um sætin tvö í 3. deild að ári.  Ég spái að hinir norðlensku sunnanmenn Mátar hafi sigur.  Líklega fylgir c-sveit Bolanna þeim upp.  Þá má ekki vanmeta Víkingasveitina og reyndar vil ég einnig benda á b-sveit TV sem mig grunar að sé mjög sterk. 

Samkvæmt mínum upplýsingum mæta 24 sveitir af 30 til leiks í fjórðu deild sem er bara býsna gott að mínu mati þar sem engin reynsla er fyrir því að halda fjórðu deildina út á landi og því renndu mörg félögin blint í sjóinn í fyrri hlutanum um heimtur í þeim síðari.

Spá um röð efstu liða:

  • 1. Mátar
  • 2. TB-c
  • 3. Víkingasveitin
  • 4. TV-b
  • 5. SA-b

Að lokum

Það er útlit fyrir skemmtilega keppni.  Reyndar er toppbaráttan ekki spennandi í neinni deild en spenna um silfur og brons geta verið spennandi.  Fallbaráttan í öllum deildum getur hins vegar orðið hrikalega spennandi. 

Og þetta er söguleg keppni.  Í fyrsta sem  keppni allra deilda fer  fram  utan höfuðborgarsvæðisins!

Og að gefnu tilefni er rétt að taka fram að spáin er bara sett fram til gamans og bak við hana liggja engin geimvísindi!

Gunnar Björnsson

Höfundur er ritstjóri http://www.skak.is/ og formaður Taflfélagsins Hellis

 


Golfmeistari BDTR

PICT1423Síðastliðinn laugardaginn fór fram Golf BDTR.  Eftir mikla baráttu sem lauk ekki fyrr en eftir mót kom í ljós að ég, Sigurbjörn og Rikki höfðum unnið frækilegan sigur.  Eins og allir vita eru miklar reglur í golfinu og ljós kom að ein helsta grundvallareglan hafði farið fyrir ofan garð og neðan hjá Arnaldi, Einar og Þresti.  Verðlaunagripirnir sem Arnaldur hafði valið að svo mikilli natni fór því til okkar sigurvegaranna.

Myndaalbúm mótsins má finna hér.  Þar má m.a. sjá kampakáta sigurvegara taka við gripunum sem Arnaldur valdi svo vel.

 


TR í sterkri stöðu fyrir síðari hlutann

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram um helgina á heimavelli Fjölnis í Rimaskóla.  TR er í mjög vænlegri stöðu hefur 3,5 vinnings forskot á Íslandsmeistara Hellis og Hauka sem eru í 2.-3. sæti.  Sveitir  TR og Hellis mætast í lokaumferðinni og það er líklegt að TR verður með forystu fyrir þá umferð. Það eykur svo enn sigurlíkur TR-inga að þeir hafa án efa sterkasta og stigahæsta liðið, með t.d. tvo næsta titilhafa landsins innan sinna raða, og því ólíklegt að liðið liggi fyrir Helli. 

Haukmenn eru jafnir Helli að vinningum en eiga eftir að tefla við bæði TR og Fjölni.  Fjölnir er í fjórða sæti og eiga heldur auðveldari dagskrá en hin toppliðin og gætu því náð þriðja eða jafnvel öðru sæti verði úrslit hagstæð.     

Staðan (í sviga er spáin eins og ritstjóri birti hana sl. haust)

  • 1.      (1) TR 25 v.
  • 2.      (2) Hellir-a 21½ v. (8 stig)
  • 3.      (4) Haukar 21½ v. (6 stig)
  • 4.      (3) Fjölnir 20 v.
  • 5.      (6) Hellir-b 12½ v.
  • 6.      (7) SA-b 11½ v.
  • 7.      (5) SA-a 10 v.
  • 8.      (8) TV 6 v.

Dagskrá toppliðanna fjögurra:

Umferð

TR

Hellir

Haukar

Fjölnir

5. umferð

Haukar

SA-b

 TR

Hellir-b

6. umferð

SA-b

TV

Fjölnir

Haukar

7. umferð

Hellir-a

TR

SA

SA-b

 

Sveitir Hauka og Fjölnis mun væntanlega stilla upp fjórum erlendum skákmönnum en TR og Hellir styðjast sem fyrr við styrkt heimavarnalið.  Með TR tefla Nataf og Galego.  Samkvæmt heimildum ónefnds TR-ings verður Simon Williams, sem lengi hefur staðið til að tefldi með Helli, upptekinn um helgina í brúðkaupi vinar síns.

Ég tel að mestu að fallbaráttan sé ráðin.  SA-b og TV falli.  Fyrrnefnda liðið á eftir að mæta TR, Hellir og Fjölni og mun a-sveit félagsins væntanlega skríða upp fyrir!

SA-a og Hellir-b mun sigla lygnan sjó og enda í 5. og 6. sæti.  

Spáin og hún var birt fyrir fyrri hlutann er því óbreytt.

  • 1.      TR
  • 2.      Hellir
  • 3.      Fjölnir
  • 4.      Haukar
  • 5.      SA-a
  • 6.      Hellir-b
  • 7.      SA-b
  • 8.      TV

2. deild:

Staðan:

  1. (1) Bolungarvík 20 v.
  2. (7) Haukar-b 13 v. (4 stig)
  3. (4) Reykjanesbær 13 v. (4 stig)
  4. (2) TR-b 13 v. (3 stig)
  5. (8) Selfoss 12½ v.
  6. (3) TG 11 v.
  7. (5) Akranes 10½ v.
  8. (6) Kátu biskuparnir 3 v.

Eins og svo oft áður er mikil spenna er í 2. deild.  Bolvíkingar eru öryggir um sigur og Kátu biskuparnir öryggir niður.  Annað er algjörlega óráðið og ljóst að sex lið geta fylgt Bolvíkingum upp og sömu lið geta fylgt biskupunum, sem án efa hafa oft verið kátari, niður.   Ég hef trú að það verði TR-ingar sem fylgi Bolvíkingunum upp.  Haukamenn gætu líka verið til alls líklegir og jafnvel Reyknesingar.  Ég spái að Skagamenn eða Selfyssingar fylgi þeim Kátu niður en þar sem yfirmaður minn er lykilmaður í liði Selfyssinga set ég Skagamenn í fallsætið!

Spá ritstjóra:

  • 1.      Bolvíkingar
  • 2.      TR-b
  • 3.      Haukar-b
  • 4.      Reykjanesbær
  • 5.      TG
  • 6.      Selfoss
  • 7.      Akranes
  • 8.      Kátu biskuparnir

3. deild:

Staðan: 

  1. (1) KR 17½ v.
  2. (3) Hellir-c 16 v.
  3. (2) TR-c 16 v.
  4. (5) TG-b 12 v.
  5. (4) Dalvík 12 v.
  6. (6) TR-d 8 v.
  7. (8) TV-b 7 v.
  8. (7) Reykjanesbær-b 6½ v.

Í 3. deild berjast þrjú lið um tvö sæti.  KR-ingar og Hellismenn hafa mæst en TR-ingar eiga eftir að tefla við báðar sveitirnar  Líklegt er að TR-ingar mæti hins vegar með töluvert sterkara lið nú en í fyrri hlutanum.  Erfitt er í spilin að spá en ég ætla að giska á óbreytta stöðu á toppnum, þ.e. að KR og Hellir fari upp.  B-liðum Eyjamanna og Reyknesinga spái ég falli.

Spá ritstjóra:

  • 1.      KR
  • 2.      Hellir-c
  • 3.      TR-c
  • 4.      TG-b
  • 5.      Dalvík
  • 6.      TR-d
  • 7.      Reykjanesbær
  • 8.      TV-b

4. deild

Staða efstu liða:

  • 1. (1) Bolungarvík-b 17½ v.
  • 2. (2) Fjölnir-b 16½ v.
  • 3. (6) Víkingasveitin 16 v.
  • 4. SA-c 15½ v.
  • 5.-8. Haukar-c, KR-b, Snæfellsbær og Austurland 15 v.

Bolvíkingar fara væntanlega upp og ætla ég að spá að Fjölnir fylgi þeim upp. Víkingarnir vösku, Gunnar Freyr og fleiri gætu þá hæglega sett strik í reikninginn en ég hef minni trú á öðrum liðum.  

Úrslitin í fjórðu deild geta þó verið býsna tilviljunarkennd, t.d. stórsigur í lokaumferðinni gæti tryggt óvænt sæti í 3. deildinni að ári þegar deildin er svo jöfn.  

Að lokum

Rétt er að árétta enn og aftur að þessi spár og pistill er fyrst og fremst settur fram til gamans!  Ekki er pistilinn byggður á ítarlegum geimvísindum!

Rétt er svo að minna á nokkra praktíska hluti. 

  • Tímamörkin er 1½ klst. á skákina auk 30 sekúnda á leik. Enginn viðbótartími bætist við eftir fjörtíu leiki.
  • Slökkva þarf á GSM-síma. Hringi hann þýðir það umsvifalaust tap.  Stefán Frey vil ég svo sérstaklega minna á að slökkva einnig á vekjaranum í símanum. 
  • Teflt er í Rimaskóla í Grafarvogi

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga er einn skemmtilegasti skákviðburður hvers árs. Gera má ráð fyrir spennu í öllum deildum bæði á toppi sem botni og líklegt að úrslit ráðist ekki fyrr en á lokamínútum.  Lokahóf og verðlaunaafhending fer svo fram í Feninu og hefst kl. 22.  

Reynt verður að uppfæra Skák.is eins fljótt og auðið er eftir hverja umferð.  Einnig skilst mér að helsti Chess-Results-sérfræðingur landsins, Páll Sigurðsson, ætli að freista þess að skrá inn úrslitin að einhverju leyti jafnóðum.  Að öðrum kosti mun ég not ég nota mitt hefðbundna trausta excel-skjal!

Spennan er mikil.  Margar spurningar vakna.  Mun ritstjórinn nota orðlagið „Íslandsmeistarar" í sama mæli að keppni lokinni?  Mun Fischer snúa sér við í gröfinni frægu?  Munu óvæntir erlendir skákmenn láta sjá sig í Rimaskóla?  Verður Skákhornið ritskoðað eða óritskoðað, aðfaranótt sunnudagsins?    Hverjir fagna?  Hverjir blóta?   Verður klakkað?

Allt þetta og meira til kemur í ljós um helgina!  Megi besta liðið vinna!

Gunnar Björnsson

Höfunudur er ritstjóri Skák.is og jafnframt formaður Taflfélagsins Hellis 


TR með forystu eftir fyrri hlutann - fjögur lið eiga möguleika á sigri!

Það fór eins og flestir spáðu að TR myndi hafa forystu eftir fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga.   TR-ingar hafa 3½ vinnings forskot á Íslandsmeistarana í Helli og Haukamenn.  Fjölnismenn koma svo  skammt undan eða 1½ vinningi þar á eftir.  TR á hins vegar erfitt prógramm eftir en þeir eiga bæði eftir Helli, sem þeir mæta í lokaumferðinni, og Hauka.  Það er því allt galopið fyrir lokaátökin sem fram fara 28. febrúar og 1. mars og ljóst að fjögur lið eiga raunhæfa möguleika á sigri þótt staða TR sé auðvitað vænlegust.   Bolvíkingar eru nánast öruggir með sigur í 2. deild en allt er galopið í 3. og 4. deild.


1.  deild


Staðan (spá ritstjóra í sviga)

  1. (1) TR 25 v.
  2. (2) Hellir-a 21½ v. (8 stig)
  3. (4) Haukar 21½ v. (6 stig)
  4. (3) Fjölnir 20 v.
  5. (6) Hellir-b 12½ v.
  6. (7) SA-b 11½ v.
  7. (5) SA-a 10 v.
  8. (8) TV 6 v

Á ýmsu hefur gengið í fyrstu deild.  Til að byrja með var hátt flug á Haukum sem voru í forystu eftir fyrstu tvær umferðirnar en máttu sætta sig við naumt tap fyrir Helli í 3. umferð og þá notuðu TR-ingar tækifærið og náðu fyrsta sæti sem þeir halda enn.

TR-ingar geta ágætlega vel við unað.  Nokkur óstöðugleiki einkenndi þó TR-sveitina, sem þó stillti upp 3-5 stórmeisturum í hverri umferð. Í einni umferðinni var hálft b-liðið farið að tefla með a-liðinu og nánast allt c-liðið úr fyrri umferðum komið í b-liðið.  Það setti skemmtilegan svip á keppnina að Friðrik Ólafsson skildi sjá sér fært að mæta til leiks!  Í fjórðu umferð urðu forföll á síðustu stundu hjá a-liðinu og mátti sá sem þetta ritar taka í hendur á tveimur skákmönnum en sá sem upphaflega átti að tefla við mig færðist við þetta upp um borð og slapp þar með við að lenda í Sláturhúsi GB.  

Íslandsmeistararnir eru í öðru sæti með 21½ vinning.   Fyrsta borðs maður Hellis, Jóhann Hjartarson, forfallaðist með skömmum fyrirvara.  Tékkinn Radek Kalod tók þá vaktina á fyrsta borði en hann var eini stórmeistari Hellis nú.  Karl Þorsteins tefldi með Helli og er það í fyrsta skipti í ein fjögur ár sem hann teflir opinberlega.   Sigurmöguleikar Hellis felast í því að minnka muninn gagnvart TR og ná góðum úrslitum gegn þeim í lokaumferðinni.   Styrkleik Hellis var sem endranær góð liðsheild og hversu menn eru tilbúnir að leggja sig ávallt 100% fram fyrir klúbbinn.  Radek smellpassar svo í hópinn og hvetur menn óspart áfram.

Haukamenn hafa ekki sagt sitt síðasta orð og komi þeir með sterkt lið í seinni hlutanum gætu þeir hæglega hafnað í einum af þremur efstu sætunum.  Mikil og sterk liðsheild einkennir liðið og þar leggja sig allir 100% fram.  Á fyrsti borði teflir Litháinn Kveynis með sitt stóra bros en hann var eini stórmeistari Hauka. 

Fjölnismenn tóku þátt í fyrsta skipti fyrstu deild Íslandsmóts skákfélaga.  Rétt eins og Haukar stilltu þeir upp þremur erlendum leikmönnum í fyrstu umferð en í þeirri annarri var sá fjórði mættur, stórmeistarinn (Likavesky). Ástæðan var sú að hann missti af flugi deginum áður og var því of seinn í fyrstu umferð þegar félagið mætti TR.  Með Fjölni tefldu því 4 stórmeistarar.  Á fyrsta borði tefldi hinn geðþekki Tékki Oral og vann hann m.a. Hannes Hlífar í fyrstu borði en það er fátítt að Hannes tapi skákum í keppninni. Á öðru borði tefldi okkar nýjasti stórmeistari Héðinn Steingrímsson.   Fjölnismenn eru búnir bæði með TR og Helli og geta með góðum úrslitum blandað sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.  

B-sveit Hellis er í fimmta sæti.  Þar stóð uppúr góð frammistaða Gunnars Björnssonar sem vann allar sínar skákir fjórar að tölu og er samkvæmt lauslegum rannsóknum ritstjóra sá eini í fyrstu deild sem afrekaði það.   Oft hefur verið ýjað að því að b-sveitarmenn beiti sér ekki gegn eigin a-sveit en ljóst er það á ekki við Hellismenn því formaður félagsins, sem tefldi með b-sveitinni, og er einnig liðsstjóri liðsins, vann sína skák!   Hann reyndar bætti það upp með því sigra einnig andstæðinga sína hjá TR og Haukum.

B-sveit SA er í sjötta sæti og er athyglivert að þeir eru fyrir ofan a-sveitina.  Rétt eins og venjulega markaði b-sveitin verulega á a-sveitina en þar urðu úrslitin 5-3 a-sveitinni í vil.   Margt  bendir þó til þess að sveitin falli því andstæðingarnir í seinni hlutanum verða m.a. TR og Hellir a-sveit. 

A-sveit SA er í sjöunda sæti.  Sveitin mun færast ofar enda fékk hún geysierfitt prógramm í fyrri hlutanum.  Mikil forföll voru hjá Akureyringum að þessu sinni.  Ýmist voru menn uppteknir erlendis, innanlands eða vildu jafnvel ekki tefla í mótmælaskyni! 

Eyjamenn eru í áttunda og síðasta sæti.  Lið þeirra var veikt eins og vitað var fyrirfram.  Helgi Ólafsson tefldi þrjár skákir, allar skákirnar nema gegn TR þar sem hann átti að hafa svart gegn Hannesi Hlífari.  Í þeirri viðureign vantaði einnig annað borðs manninn, Pál Agnar.  Stefán Þór Sigurjónsson tefldi þá á fyrsta borði en ég held að ég fari rétt með að hann hafi ekki komist í a-liðið í fyrra.   Það breytti því ekki að Eyjamenn náðum hálfum vinningi á TR en Sigurjón Þorkelsson gerði stutt jafntefli við Galego.   Skyldi þessi hálfi vinningur skipta svo máli í lokin?

Nokkur skemmtileg atvik áttu sér stað eins og venjulega.  Í viðureign SA og Hellis lék norðanmaður  ólöglegum leik.  Hellisbúinn drap kónginn, sem má ekki, og stað þess að kalla á skákstjóra raðaði sá norðlenski upp mönnunum og gaf þar með skákina.  Rétt hefði hins vegar að halda skákinni áfram og láta Hellisbúann fá aukatíma!  Menn gleyma sér stundum í hita leiksins.  

2. deild

Staðan:

  1. (1) Bolungarvík 20 v.
  2. (7) Haukar-b 13 v. (4 stig)
  3. (4) Reykjanesbær 13 v. (4 stig)
  4. (2) TR-b 13 v. (3 stig)
  5. (8)  Selfoss 12½ v.
  6. (3) TG 11 v.
  7. (5) Akranes 10½ v.
  8. (6) Kátu biskuparnir 3 v.

Það heyrir til undantekninga ef ritstjóri spáir að einhverju viti fyrir 2. deild og margt bendir til að svo sé einnig nú.   Bolvíkingar eru langefstur og Kátu biskuparnir, sem varla eru kátir með stöðuna núna, eru langneðstir.  Öll hin liðin er einum hnapp og aðeins munar 2½ vinning á milli 2. og 7. sæti.  Ég hef reyndar trú á því að TR-ingar fylgi Bolvíkingum upp enda styrkist b-lið þeirra til muna í síðari hlutanum.  

Lið Kátra er einfaldlega ekki nógu sterkt fyrir 2. deild en þeir fengu engan liðsauka nú að utan eins og þeir gerðu í fyrra sem hefði verið lífspursmál fyrir þá hefðu þeir vilja haldi sínu sæti í deild þeirra næstbestu.  Ómögulegt er að segja hverjir munu fylgja þeim niður. 

3. deild.

  1. (1) KR 17½ v.
  2. (3) Hellir-c 16 v.
  3. (2) TR-c 16 v.
  4. (5) TG-b 12 v.
  5. (4) Dalvík 12 v.
  6. (6) TR-d 8 v.
  7. (8) TV-b 7 v.
  8. (7) Reykjanesbær-b 6½ v.

Ritstjóri virðist hafa verið óvenju glöggur í spánni fyrir þriðju deild.  Þar eru KR-ingar efstir en eru engan vegin öruggir um að vinna sér sæti í 2. deild að ári því líklegt er að bæði sveitir Hellis og TR muni koma sterkari til leiks að ári.  TR-ingar eiga bæði eftir að tefla við KR og Helli og staða Hellis því nokkuð vænleg.   Botnbaráttan er ekki síður spennandi.   Líklegt er að úrslitin ráðist ekki fyrr en á lokasekúndunum.

4. deild

Staðan:

1. (1) Bolungarvík-b 17½ v.
2. (2) Fjölnir-b 16½ v.
3. (6) Víkingasveitin 16 v.
4. SA-c 15½ v.
5.-8. Haukar-c, KR-b, Snæfellsbær og Austurland 15 v.
9. Hellir-f 14½ v.
10. Selfoss-b 14 v.
11.-15. Reykjanesbær-c, Haukar-d, TV-c, UMFL og TG-c 13 v.
16.-17. Sauðárkrókur og Hellir-d 12½ v.
18.-19. Goðinn og Hellir-g 12 v.
20. TR-e 11 v.
21. UMSB 9½ v.
22, SA-d 8½ v.
23.-24. Haukar-e og Hellir-e 7 v.
25.-26. Fjölnir-c og Skákdeild Ballar 6 v.
27. TR-f 5 v.

Í fjórðu deild getur einnig allt gerst.  Líklegast er þó að Bolvíkingar, Fjölnismenn og jafnvel Víkingasveitin berjist um sætin tvö.  Gaman er að sjá klúbba eins og Snæfellinga og Austlendinga blanda sér í baráttuna.  Hrafn Jökulsson tefldi fyrir Snæfellinga og var óvenjulegt að sjá þann mikla skákfrömuð láta sér duga að tefla „bara".    Hann stóð sig víst vel og vann m.a. Erling Þorsteinsson.

Að lokum

Eins og venjulega fór keppnin vel fram.  Aðstæður í Rimaskóla eru til mikillar fyrirmyndar og enn skemmtilegra þegar allir tefla í einum sal.    Haraldur Baldursson var röggsamur yfirdómari sem sá til þess að allt gengi vel fyrir sig.   Eina sem mér finnst vanta er að fá ekki einstaklingsúrslit en við það er erfitt að eiga því allir sem vettlingi geta valdið tefla í keppninni, og þeir sem ekki tefla eru gerðir að skákstjórum! 

Ef til vill ætti SÍ að íhuga að borga fyrir það og fá einhvern utanaðkomandi til að slá þessu jafnóðum inn.  Reyndar mikil vinna fyrir viðkomandi.  Einnig verður SÍ að beita sér fyrir að skákir mótsins verði slegnar inn.

Jæja, þá er skemmtilegum fyrri hluta lokið og ljóst að menn geta farið að hlakka til fyrir þann seinni sem fram fer 28. febrúar og 1. mars og vonandi einnig í Rimaskóla.

Megi besta liðið vinna!

Gunnar Björnsson

Höfundur er ritstjóri Skák.is og formaður Taflfélagsins Hellis


Fertugur og fær í allan sjó!

GunnarÞann 23. september varð ég fertugur.  Í tilefni þess stóð ég fyrir afmælisveislu eins og vera ber!  Veislan fór fram í Gallery Turpentine á Ingólfsstræti 5 laugardaginn 22. september.   Þegar klukkan fimm tók gesti að streyma en um 70 gestir létu sjá sig í allt.   

Þröstur Þórhallsson var veislustjóri og stóð sig með stakri prýði.  Arnaldur Loftsson samdi texta með smá aðstoð Sverris Stormkers sem afmælisbarnið var látið syngja.  Bindindisfélagið stóð svo fyrir falskasta söng Íslandssögunnar eins og vera ber.  Ég hef alltaf talið mig slakan söngvara en ég hefði gert miklu betur!  Guðfríður Lilja fjallar um afmælið og gerir söngnum góð skil á bloggsíðu sinni.  Takk fyrir falleg orð í minn garð, Lilja!

Gunnar stoltur með afmælisbikarinn

Vínskápurinn er nú fullur af koníaks- og viskýflöskum.  Allmargar bækur bættust við í bókaskápinn og ófáar inneignarnótur bíða þess að vera notaðar!  Bindindisstrákarnir gáfu mér veglega golfkerfu svo golfið verður tekið föstum tökum næsta sumar.   Eina gjöf mér þótti mér einkar vænt um en hún var frá Helli, þ.e. afmælisbikarinn en þar segir:  „Taflfélagið Hellir – Afmælisbikarinn, 1. verðlaun – Gunnar Björnsson 40 ára þann 23. september 2007 fyrir 16 ára samfelda stjórnasetur, siguræla liðsstjórn og óskeikula skákstjórn“  Takk! 

Gulli bróðir Ídu koma með mynd þar sem búið var að setja inn nýjan söngvara inn fyrir Freddie.  Sá er ekki síðri!

Afmælisveisla 058

Að loknu veislunni í Gallerýinu voru helstu partýrotturnar drifnar í partý heim í Gnoðarvoginn.  Þar var drukkið langt fram á nótt , dansað og haft gaman.   Hef síðan þá labbað með hauspoka þegar ég ég hitti nágrannanaSmile  

Sunnudagurinn, já hann var ekki jafn skemmtilegur!   Já og þá skrópaði ég í hópavinnu í HR í fyrsti skipti.  Líkaminn og sófinn náðu of vel saman til að vinna við verkefni í Rekstrarstjórnun.  

Meðfylgjandi er tveir textar sem búnir voru til í tilefni afmælisins.  Sá fyrri er eftir Kolbrúnu Eiríksdóttur, sem vinnur með Ídu og sá síðari er eftir Sverri Stormsker og Arnald Loftsson.

Falskasti kór Íslandssögunnar

 

Nú er Gunnar fertugur og  fagnar því,

Flakkað hefur mikið bönkunum í,

Byrjaði í Íslandsbanka ungur og hress,

En varð ansi leiður og sagði svo bless.

 

Svo lá leið til Kaupþings en þaðan fór hann

Beina leið til Björgólfs í Landsbankann,

Þeir eru víst  að spá í það í Sparisjóðunum,

Hvernig þeir eigi að taka á móti ' onum.

 

Hellisbúi er hann og heldur utan um

Að hlaða þar niður skákfréttunum,

Hann er býsna fróður og bækur hann les,

Og  beljandi hláturinn er voðalega spes.

 

Kátur og glaður ertu Gunnar minn,

Gæfa og lukka lýsi veginn þinn,

Drekkum nú og dönsum og hlustum á Queen,

Til hamingju segir hún Ída þín.  

 

Gunnar að hlusta á falskasta kór ÍslandssögunnarTakk ída og Kolbrún.  Frábær texti þótt fæstir hafi náð honum þegar Bindindiskórinn söng hann.  Til þess var hann of falskur.  Myndin hér af mér til hliðar ýsir viðbrögðum mínum við söngnum.  

Hér kemur texti Arnaldar og Sverris:

 

 

 

Hei, Gunni ólst upp í Hlíðunum

Í Grænuhlíð með bræðrunum

Hann tefldi alltaf agressívt

með bærilegum árangri.

Hann hefur unnið vel í bankanum

og vakað yfir bréfaguttunum.

 

Hann Gunni stofnaði svo Skák-Hellinn

og bindindis-sveina-skákklúbbinn

Hann er sannlega algjör félagsfrík

Við skálum fyrir því.

Við skulum skála fyrir því

að við erum nú í afmælí!

 

Skál, skál,

Skál, skál fyrir Gunna Björns

Skál, skál

Skál, skál fyrir félögum

og góðu fylleríunum.

 

Hann Gunni giftist síðan Ídunni,

Elskunni og heillinni.

Finnst mér nú alveg tilvalið

að skála fyrir því.

Nú skálum fyrir þeirra sonum

og síðan fyrir öllum konum!

 

:Gunni!, Gunni! Gunni hinn fertugi

Vei, vei, vei vei skálum fyrir því

hversu sjaldan hann fer á fyllerí.:

 

Gunni!, Gunni! Gunni hinn fertugi

Vei, vei, vei vei skálum fyrir því

að það sé enn til nóg að skála í.

 

Hér má finna myndasafn frá gleðinni.  Einnig má hér finna gamlar myndir af mér að mestu úr myndaalbúmi mömmu en þessar myndar rúlluðu á myndvarpa.   

Öllum þeim sem hjálpuðu mér við afmælið þakka ég fyrir hjálpina.  Mömmu fyrir að búa til 300 ostastangir, Stebba og Önnu fyrir hjálp heima til að undirbúa heimilið fyrir átökin, Þóri bróði fyrir myndatökuna, Þresti fyrir veislustjórn, Svenna bróðir Þrastar fyrir leigu á þessum ofsalega skemmtilega stað, þeim systrum Gunnu og Öddu, sem hjálpuðu við Sushíið, Daníu, Tótu, Steingerði og Örnu sem báru fram veitingar af miklum myndarskap.  Mestar þakkir frá þó hún Ída mín, sem stóð sig eins og hetja við að allt væir eins og það ætti að vera.  Öllum öðrum sem ég gleymi að telja upp þakka ég líka fyrir! 

Kórinn fær svo sérstakar þakkir fyrir að koma fólki í svona gott skap!

Fimmtugur, ég get bara ekki beðið.LoL


Þegar stórt er hefnt.........

Gudfridur_LiljaFréttastofa Stöðvar 2 hefur ekki séð ástæðu til að fjalla um Íslandsmótið í skák.  Þar til í gær þá birtist skrýtin frétt á Stöð 2 þar sem fram kom að verðlaun í „karlaflokki“ væru mun hærri en í kvennaflokki.  Nú er það þannig að í Íslandsmótinu í skák er enginn „karlaflokkur“ heldur landsliðsflokkur og meðal keppenda nú er t.d. sterkasta skákkona landsins, Lenka Ptácníková.  Inntakið í fréttinni var því kolrangt. 

En hvað skýrir þessa skrýtnu frétt?  Það skyldi þó ekki vera grein Guðfríðar Lilju í Fréttablaðinu í fyrradag til varnar Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur sem fréttastjórinn rak um daginn?  

Eitt sitt spunameistari ávallt spunameistari?

Þegar stórt er spurt...........


Ferðalok Spánarferðar

Guðríður og Ída

Jæja, þá er komið að lokauppgjöri ferðarinnar.  Á miðvikudeginum fórum við á Terra Mítica sem er einn stærsti skemmtigarður Evrópu að okkur skilst.   Hann er rétt við Benidorm, en hér er mynd sem tekin var úr "lyftu" sem fór býsna marga metra upp í loft.  Benidorm

Þar fór ég í rússíbana í fyrsta skipti á ævinni en Björn tókst að draga mig í einn slíkan.  Við biðum í biðröð í yfir einn klukkutíma í þeim eina tilgangi að líða vítiskvalir í 5 mínútur!   En mikið leið manni vel þegar þetta var búið!  

Einnig fórum við t.d. í draugahús, litbolta (paintbolta) þar sem ég fékk góða málningarklessu í gagnaugað og hefði semsagt orðið steindauður í alvörustríði!   Eitt það skemmtilegasta þarna voru vatnsrússíbanar þar sem maður tók góðar salíbunur og verð hundblautur.  Alveg þrælskemmtilegur dagur en við komum ekki heim fyrr en um miðnætti!

Á Alicante kynntumst við skemmtilegu fólki, sem átti heima í sömu lengju og við, þau hin sömu sem lentu í bíræfnu ráni sem ég hef sagt frá áður.  Einnig hittum við Sigga frænda hennar Ídu (mamma Ídu og amma hans eru systur).   

Við fórum t.d. með þeim á Terra Mitica og þar hitti ég einnig skólabróður minn hann Björn Róbert.

Mamma reyndist bara þokkalega spök Wink en þessi mynd er tekin af henni á asíska snilldarstaðnum Wok sem ég hef sagt frá áður.   

Á fimmtudeginum var brottför undirbúin og svo lagt af stað um kvöldmatarleytið.  Í flugvélinni var mikið hóstað og greinilegt að margir tóku með sér kvef heim til Íslands þar á meðal sá sem þetta ritar!  

Skemmtileg ferð er búinn og nú tekur vinnan og skólinn við!  Þakka þeim sem lásu!

Fleiri eru komnar inn flestar frá Terra Mítíca.  Þar má finna undir "myndaalbúm" efst til vinstri.  


Á Spáni er hægt að djamma og djúsa

null

Jæja, fyrst er að afsaka bloggletina. Það er einhvern veginn þannig að maður verður býsna góður í því gera ekkert þegar maður byrjar á því. Ýmislegt hefur á daga okkur drifið síðan síðast. Við fórum á Terra Natura, sem er vatnsrennibrauta- og dýragarður og áttum þar góðan dag. Þessi garður er í Murcia, sem er svolítið inn í landi, og sennilega var það snjall leikur enda ekki mikið um raðir. Ég hef heyrt af fólki sem hefur farið í garði í Torreveca að þar sé algjör örtröð.

Eitt það allra skemmtilegasta var þegar björnunum voru gefnir ávaxtir eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Vinalegir þessir Birnir!

Mamma kom á laugardagskvöldið og náðum við Björn í hana út á flugvöll. Sú gamla var hin sprækasta. GPS-tækið kom að góðum notum við að finna flugvöllinn. Reyndar virkar tækið ekki alltaf fullkomlega hér og nokkuð um að götur séu ekki inn á því. Einnig hefur sagt okkur að beygja til hægri þegar það er ekki hægt en engu að síður hefur það hjálpað okkur heilmikið.  Takk kærlega fyrir lánið Hildur!

Við fórum á ströndina í Guerdemar á sunnudeginum. Virkilega skemmtileg strönd með háum öldum og miklu minna af fólki en á Torraveca-ströndinni. Á leiðinni þar renndum við framhjá flóamarkaði og ýmislegt keypt eins og t.d. Gerrard-treyja á Gunnar Val og ég keypti mér skó! Eftir ströndina keyrðum við strákarnir niður á enska pöbb í Torravoca og horfðum á Liverpool-Chelsea og þar hitti ég skólafélaga minn, hann Björn Róbert. Ég var nokkuð hissa að nánast jafnmargir á pöbbnum voru að horfa á einhver ruðningsleik. Ég meina..........Liverpool-Chelsea..............og ruðningsbolti. Come on!

Því miður skemmdi dómarinn leikinn þegar hann dæmdi víti á Liverpool. „Ridicilus decision“ sögðu þulirnir á Sky Sport og meðlýsandi þeirra, Steve McLaren landsliðsþjálfari Englendinga. Búið er að dæma tvö víti á Liverpool á Anfield í ár sem er einu meira en allt tímabilið í fyrra! En frammistaða minna manna góð og rauðklæddu drengirnir til alls líklegir í ár. Minni svo á að áskriftin af enska boltanum hækkaði um 88% á milli ára eftir að boltinn færðist til 365.

Um kvöldið fórum við svo á fínan skemmtilegan ítalskan veitingastað í boði Guðríðar. Um kvöldið settumst við svo upp og drukkum og höfðum gaman langt fram á nótt!

Dagurinn í gær fór að miklu leyti í leti (sem er mjög óvenjulegt hér!Smile). Við fórum reyndar í moll, nánar tiltekið Carrefour og reynum að lifa í þeirri blekkingu að aðrir kunna að hafa verslað meira en við en tengdamæðgurnar reyndust vera býsna öflugar þegar komið var í fatadeildina. Ég var reyndar mjög ánægður með bjórinn sem ég keypti þar en dósin kostaði 0,26 evru. Ætli Guðlaugur Þór viti af þessu ?

Í kvöld fórum við á asískan stað hér kallaðan Wok.  Meiriháttar flottur staður þar sem maður velur sér hrátt kjöt og lætur kokkinn elda fyrir sig.  Alveg frábær staður sem ég hvet alla á að fara á sem koma hingað.   Wink

Nú eru bara 2 dagar eftir og á morgun ætlum við að fara í Terra Mitaca, sem er stærsti skemmtigarðurinn hér og einhver sagði mér að þetta væri stærsti skemmtigarður Evrópu. Með okkur fer skemmtilegt fólk sem við höfum kynnst hér.

Að lokum verð ég nefna býsna bíræfið rán, sem varð í íbúð í lengjunni nánar tiltekið í horníbúð íslenskrar fjölskyldu, einmitt hjá þeirri sem við förum með á Terra Metica á morgun.  Á meðan hún var að skemmta sér sitjandi útiá neðri hæðinni klifruðu þjófar upp um efri salir og fóru í svefnherbergin. Þeir virðast svo hafa dúllað sér við hirða kreditkort, skartgripi, myndavélar o.þ.h. á meðan allt var á fullum svingi niðri. Þeir reyndar voru það „tillitsamir“ að þeir skiluðu vegabréfunum á leiðinni út.

Jæja, bið að heilsa í bili, þurfum að vakna snemma á morgun.   See you later!

Minni svo á að fleiri myndir má nú minna finna undir "myndaalbúm". 

 


Á ströndinni í gær

GunnarÍ gær dreif fjölskyldan sig á ströndina.  Nánar tiltekið á Los Locos ströndina í Torreveja.  Þegar við mættum þangað var þvílíkur fjöldi að fólki að okkur leyst ekkert á blikuna.  Mikið  var að Spanverjum þar sem vorum á ströndinni og einhvern veginn höguðu þeir sér öðruvísi en Vestur-Evrópubúar.  Ekki var t.d. óvenjulegt að sjá þá reykja við rétt við flæðarmálið eins og ekkert væri sjálfsagðara. Sömuleiðis var nokkuð sérkennilegt að sjá konur á eftirlaunaaldri vera berar af ofan!

Mamma.....þegar þú kemur hingað á laugardaginn.  Þú þarft ekki endilega að taka spænskar konur til fyrirmyndar að öllu leyti.

Strákarnir fóru í hefðbunda virkjabyggingar eins og sjá má í meðfylgjandi mynd :

 

.....ok kannski ekki alveg farið farið með rétt mál en ég kunni ekki annað við en henda smápeningum í þá snillinga sem höfðu haft fyrir þessari smíð. 

Byggingar strákanna voru svona.

Stórar en ekki jafn flottar.   Svo fórum við kallarnir á hjólabát og skemmtun okkur vel!

Svo var merkilegt að um þrjúleytið var allt í einu meirihluti fólksins farinn.  Greinilegt að Spánverjarnir fara þá að borða en ég giska að um 70% fólksins hafi þá verið farinn.  

Að loknum skemmtilegri strandferð var farið heim og farið í sundlaugina og horft á nokkra Friendsþætti og slappað.  Enn einum skemmtilegum degi lokið!

Minni á myndasafn undir myndaalbúm.

Heyrumst síðar!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband