Stefanía 60 ára

StefaniaÞann 4. febrúar eru 60 ár síðan ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, iðulega kölluð Stefanía, tók við völdum á Íslandi.   Ríkisstjórnin, sem var stjórn Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sat í nærri 3 ár eða til 6. desember 1949.  Ríkisstjórnin er merkilegt fyrir ýmislegt.  Þetta er eina meirihlutastjórnin á lýðveldistímanum sem ekki var undir forystu Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks en tvær minnihlutastjórninir undir forystu Alþýðuflokksins hafa einnig setið við völd í skamman tíma. 

Einnig verður það að teljast merkilegt að stjórnin var undir forsæti Alþýðuflokks þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu hér rúman meirihluta og hefðu vel getað myndað stjórn án Alþýðuflokksins.  Hvorki Hermann né Ólafur Thors sátu í henni en þeir voru svarnir óvinir á þessum tíma sem rekja má til deilna um kjördæmisskipan.  Í ríkisstjórninni voru ásamt Stefáni Jóhanni, Emil Jónsson úr Alþýðuflokknum, Bjarni Benediktsson og Jóhann Þ. Jósefsson, Sjálfstæðisflokki og Eysteinn Jónsson og Bjarni Ásgeirsson, Framsóknarflokki.

Ríkisstjórnin hefur fengið blendna dóma í gegnum tíðina enda átti hún sinn þátt í því að koma hér á haftakerfi.  Reyndar e.t.v. ósanngjarnt að kenna ríkisstjórninni um það eingöngu enda tókst Nýsköpunarstjórninni, sem sat á árunum 1944-1947, að eyða stríðsgróðanum á undraskömmum tíma, en þjóðin sem hafði grætt flestra þjóða mest á stríðinu fékk fyrst allra landa Marshall-aðstoðina, sem var ætluð stríðshrjáðum þjóðum.   Í tímum Stefaníu gekk landið í Atlantshafsbandalagið.  Ríkisstjórnin lét af völdum í árslok 1949 og við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Ólafs Thors enda voru forystumenn bæði í Sjáfstæðis- og sérstaklega Framsóknarflokknum ekki of hrifnir af stjórninni.  

Málið er mér nokkuð skylt enda var Stefán Jóhann afi minn.  Stefán tók við sem formaður Alþýðuflokksins árið 1938 þegar Jón Baldvinsson lést en skömmu áður hafði þáverandi varaformaður flokksins, Héðinn Valdimarsson, gengið til liðs við kommúnista.   Afi tók við flokknum á mjög erfiðum tíma þegar flokkurinn var í nokkurri upplausn, hafði verið kosinn formaður án hans vitundar, er hann var á heimleið til Íslands með Gullfossi.  Hann var síðar felldur sem formaður flokksins árið 1952 af Hannibal Valdimarssyni og kom ný forysta í veg fyrir að hann næði endurkjöri til Alþingis ári síðar.  Afi gerðist svo sendiherra í Danmörku árið 1957 og gegndi því starfi þar til lét af störfum sökum aldurs.  

Afi lést 1980 þegar ég var 13 ára.  Ég kynnist honum því nokkuð, enda átti hann heima í næsta húsi, og er mér það minnisstætt hversu mikið hann fagnaði kosningasigrinum 1978.   Nokkuð var gestkvæmt hjá honum á hans elliárum og komu margir ungir stjórnmálamenn í heimsókn til hans.  Til dæmis komu bæði Vilmundur Gylfason og Davíð Oddsson í heimsókn.   

Mér er líka minnisstætt að einu sinni var þátturinn Maður er nefndur um Brynjólf Bjarnason sýndur í Sjónvarpi.  Haft var viðtal við afa heima hjá honum í Grænuhlíðinni þar sem ég var viðstaddur en mátti ekki segja orð.  Afi talaði þar fremur mildilega um Brynjólf, sem hafði ávallt verið svarinn andstæðingur hann, enda afi innilega hataður af kommunum í gegnum tíðina, það mildilega að Brynjólfur hringdi í hann degi eftir þáttinn og þakkaði honum fyrir en þeir höfðu þá ekki ræðst við í mörg ár.  Að sögn kunningja míns, sem er sagnfræðingur, hafði Brynjólfur sagst ætlað að skjóta SJS, myndi byltingin sigra, en sjálfsagt hefur þetta verið til gamans sagt!

Stúdentar 1918
Afi og Brynjólfur voru samstúdentar úr MR árið 1918 og man ég vel eftir 60 ára stúdentsafmæli, sem haldið var heima hjá afa, en þá hittust þessir fornu fjandar og fór bara vel á þeim! Þessi mynd úr því boði birist í Morgunblaðinu. Gömlu erjurnar gleymdar og grafnar en þeir höfðu reyndar verið samherjar 1918 en síðar skyldu leiðir.   

Flokkar þeirra voru svo sameinaðir tæpum 30 ára seinna þrátt fyrir að sumir gömlu kommanna hafi kosið að halda jafnaðarmönnum enn sundruðum enda margt skrýtið í kýrhausnum!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Frábær pistill Gunnar. Gaman að skyggnast bak við tjöldin á þennan hátt. Takk !

Hrannar Björn Arnarsson, 13.2.2007 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband