Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram um helgina

Seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram 2. og 3. mars nk.  Staða Hellis er vænleg í fyrstu deild en Vestmannaeyingar eygja von nái þeir góðum úrslitum. TR er öruggt með þriðja sætið en gæti náð öðru sæti þróist úrslit þeim í vil. B-lið SA og  TG eru í mikilli fallbaráttu og staða b-liðs TR er afar slæm.  

1. deild

Staðan í fyrstu deild:

  1. Hellir 30 v.
  2. TV 25 v.
  3. TR-a 21,5 v.
  4. SA-a 14,5 v.
  5. Haukar 12,5 v.
  6. SA-b 11 v.
  7. TG 9 v.
  8. TR-b 4,5 v

Árangur Hellis var frábær í fyrri hlutanum en sveitin hlaut 30,5 vinning í 32 skákum, sem er sennilega Íslandsmet. Ekki einu sinni Hróksverjar náðu víðlíka árangri. Árangur Hellis kom nokkuð á óvart í fyrri hlutanum enda höfðu margir afskrifað Hellisbúa með þeim fleygu orðum "Hellir sokkinn í sæ". og töldu að Eyjamenn og TR-ingar myndu berjast um sigurinn. En Hellismenn skriðu úr helli sínum, ósokknir.  

Eyjamenn munu án efa mæta með sína fjölþjóðasveit. Væntanlega munu fjórir erlendir stórmeistarar tefla fyrir þá auk Helga og Henriks sem þýðir að þeir tefla fram sex stórmeisturum. Hellismenn treysta venju samkvæmt mikið á sína FIDE-meistara og aldrei þessu vant eru Hellismenn virkustu skákmenn landsins en oft hefur æfingaleysi loðað við Hellisbúa en svo er ekki nú. Forysta Hellis á Eyjamenn eru 5 vinningar en líklegt er að Eyjaskeggjar dragi á Helli í 5. og 6. umferð þegar Hellismenn mæta TR og SA en Eyjamenn TR-b og TG.

Hellir og TV mætast svo í hreinni úrslitaviðureign á laugardag. Spurning er bara hver verður forysta Hellis fyrir lokaumferðina, ef hún verður enn til staðar.. Spennan gæti því orðið óvenju mikil en langt er síðan að hrein úrslitaviðureign hefur farið fram í lokaumferðinni. Jafnvel þarf að leita aftur til þess er TG varð Íslandsmeistari árið 1992.  

Mér finnst staða TR-b of slæm til þess að sveitin get  bjargað sér frá falli þótt aldrei megi vanmeta Fena-risann. Ég spái að SA-b, sem reyndar kom á óvart í fyrri hlutanum með góðri frammistöðu fylgi þeim niður í 2. deild og TG-ingar, bjargi sér eins og venjulega frá falli

Spá ritstjóra (í sviga er spáin frá því fyrir keppni):

  1. (3) Hellir
  2. (1) TV
  3. (2) TR
  4. (5) SA
  5. (4) Haukar
  6. (7) TG
  7. (8) SA-b
  8. (6) TR-b

2. deild

Staðan:

  1. Fjölnir20 v.
  2. Reykjanesbær 15,5 v.
  3. Bolungarvík 15,5 v.
  4. Hellir-b 15 v.
  5. Haukar-b 9,5 v.
  6. KR 9 v.
  7. Selfoss 8 v.
  8. TG-b 4 v.

Í annarri deild eru Fjölnismenn nánast gulltryggðir með sigur. Ég spái því að Hellir-b fylgi þeim upp þrátt fyrir að vera í fjórða sæti en Hellir á eftir töluvert veikari andstæðinga en Reyknesingar og Bolvíkingar en öll toppliðin 3 eiga eftir að mætast í innbyrðisviðureignum á meðan Hellismenn hafa mætt öllum toppsveitunum. 

Fallsætið virðist bíða TG-b en erfitt er að spá hverjir fylgi þeim niður. Ég hef trú á því að Selfyssingar bjargi sér og líkast munu annaðhvort KR-ingar eða Haukar falla. Ég spái þeim síðarnefndu falli en það er samt bara 50-50 dæmi   

Spá ritstjóra:

  1. (1) Fjölnir
  2. (2) Hellir-b
  3. (4) Bolungarvík
  4. (7) Reykjanesbær
  5. (3) Selfoss
  6. (5) KR
  7. (6) Haukar-b
  8. (8) TG-b

3. deild:

Staðan:

  1. (5) Hellir-c 18,5 v.
  2. (1) Kátu biskuparnir 17,5 v.
  3. (3) TV-b 16,5 v.
  4. (4) Akranes 16,5 v.
  5. (2) TR-c 11 v.
  6. (8) Dalvík 9,5 v.
  7. (7) SA-c 5,5 v.
  8. (6) Haukar-c 2 v.

Fjögur lið berjast um sigurinn í 3. deild. Ég tel líklegast að Kátu biskuparnir vinni deildina enda með sterkasta liðið. Eyjamenn eiga eftir veikari mótherja en Hellir-c og Skagamenn og spái ég því að þeir fylgi biskupunum upp. Ómögulegt er þó að segja til um hvað gerist og líklegt að þarna geti spennan orðið mikil og líklegt að úrslitin ráðist á síðustu metrunum.  

Fall virðist bíða SA-c og Hauka-c nema að einhver kraftaverk gerist. 

Spá ritstjóra:

  1. (1) Kátu biskuparnir
  2. (3) TV-b
  3. (5) Hellir-c
  4. (4) Akranes
  5. (2) TR-c
  6. (8) Dalvík
  7. (7) SA-c
  8. (6) Haukar-c

4. deild

Staða efstu liða:

  • 1.-2. Reykjanes-b og TR-d 18 v.
  • 3.-4. Hellir-d og Austurland 16 v.
  • 5. Fjölnir-b 15,5 v.
  • 6.-10. Kátu biskuparnir-b, Snæfellsbær, SA-d, KR-b og Selfoss-b 14,5 v.

Fjórða deildin er óvenjuleg að þessu sinni þar sem engin "ofursveit" er með. Toppsveitirnar mætast í 5. umferð, þ.e. Reyknesingar og TR-ingar annars vegar og Hellir-d og Austfirðingar hinsvegar. Ég átta mig engan veginn á því hvernig þetta fer enda hef ég fremur takmarkaðar upplýsingar um styrkleika sveitanna. Ég ætla samt að spá því að toppliðin tvö, Reykjanes-b og TR-d fari upp. Einnig má benda á að lokastaðan í fjórðu deild getur orðið nokkuð tilviljanakennd, t.d. vinnist einhver viðureign stórt í lokaumferðinni gæti það dugað til þess að flytjast upp um deild.

Spá ritstjóra um efstu lið:

  1. TR-d
  2. Reykjanes-b
  3. Austurland
  4. Hellir-b
  5. Fjölnir-b

Að lokum

Rétt er að árétta að þessi spár og pistill er fyrst og fremst settur fram til gamans!

Rétt er svo að minna á nokkra praktíska hluti. 

  • Tímamörkin er 1½ klst. á skákina auk 30 sekúnda á leik. Enginn viðbótartími bætist við eftir fjörtíu leiki.
  • Slökkva þarf á GSM-síma. Hringi hann þýðir það umsvifalaust tap
  • Teflt er í Rimaskóla í Grafarvogi

Ég hlakka mikið til enda er síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga einn skemmtilegasti skákviðburður ársins. Gera má ráð fyrir spennu í öllum deildum bæði á toppi sem botni og líklegt að úrslit ráðist ekki fyrr en á lokamínútum.

Reynt verður að uppfæra Skák.is eins fljótt og auðið er eftir hverja umferð.  .  

Ég hlakka til helgarinnar!  Megi besta liðið vinna!

Heimasíða mótsins

Gunnar Björnsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Best að leiðrétta íslenskuvillur eins og venjulega. Hér neðst hefur skapast hefð fyrir ákveðinni stafsetningu og tel ég við hæfi að Gunnar segi frekar: "Megi He....altsa, besta liðið vinna."

Snorri Bergz, 1.3.2007 kl. 12:20

2 Smámynd: Karl Gauti Hjaltason

Kvitta fyrir lestur á þessum pistli um íslandsmótið.  Ég segi bara eins og í boltanum - Bikarinn til Eyja !

Kveðja - Karl Gauti.

Karl Gauti Hjaltason, 2.3.2007 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband