Hellir Íslandsmeistari skákfélaga!

Íslandsmeistarar Hellis 2007Hellismenn urðu Íslandsmeistarar skákfélaga en mótinu lauk um helgina. Hellismenn fengu 47 vinninga í 56 skákum sem er einn besti árangur sem íslenskt skákfélag hefur náð í keppninni. Aðeins ein skák tapaðist hjá Helli sem er mjög líklega met. Það sem gerir árangur Hellisbúa þó enn glæsilegri er að liðið stillti upp "aðeins" 2-3 stórmeisturum á meðan helstu keppinautarnir, Taflfélag Vestmannaeyja, stilltu ávallt upp sex stórmeisturum.  

Eftir fyrri hlutann hafði Hellir 5 vinninga forskot en viðbúið var að forystan myndi minnka þar sem Hellir átti mun erfiðari andstæðinga eftir í síðari hlutanum en Eyjamenn sem varð og raunin.  Hellir vann TR 6-2 í 5. umferð og á sama tíma unnu Eyjamenn b-sveit TR 7½-½ og forystan því búin að minnka í 3½ vinning. Í sjöttu og næstsíðustu umferð unnu Eyjamenn vængbrotið lið Taflfélags Garðabæjar á meðan Hellismenn unnu Akureyringa 5-3. Forystan var því eingöngu ½ vinningur fyrir lokaumferðina.  

Hellismenn voru bjarsýnir enda töldu þeir að hefðu þeir forystu fyrir lokaumferðina myndi þetta hafast. Hellismenn voru fyrirfram taldir sterkari á 1., 2. 7. og 8. borði og þar komu líka 3½ vinningur í hús. Á miðborðunum (3.-6. borð) þar sem Eyjamenn voru sterkari höfðu Hellismenn einnig betur, fengu 2½ vinning og öruggur sigur vannst 6-2.

Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Hellis en félagið vann áður 1999, 2000 og 2005. Hellir er nú næstsigursælasta lið sögunnar, fór nú uppfyrir Hrókinn, sem var þrefaldur meistari.  TR hefur auðvitað unnið langoftast.  Samkvæmt bók Þráins Guðmundssonar um sögu SÍ, sem nær til ársins 1995, hefur það aðeins einu sinni gerst að lið hafi fengið fleiri vinninga en Hellir nú að það var TR tímabilið 1980-81 en sveit TR fékk þá 47½ vinning.  Ég hef ekki lagst þá í sagnfræðivinnu að skoða árin eftir 1995 en sjálfsagt hefur Hrókurinn verið á svipuðum slóðum þegar hann titilinn þrjú ár í röð.  

Allir Hellisbúar stóðu sig vel og hækka nánast allir á stigum. Frábær liðsheild skóp sigur Hellis en menn voru mjög vel einbeittir og sigurviljinn og sjálfstraustið voru hvort tveggja í botni. Hellir stillti nú upp tveimur erlendum stórmeisturum enda mönnum ljóst að það þyrfti ef hafa ætti Eyjamenn undir. Báðir smellpössuðu þeir inn í hópinn og var t.d. barátta Kalods aðdáunarverð.

Atlaga Eyjamanna mistókst nú annað árið í röð þrátt fyrir að hafa sterkasta liðið á pappírnum rétt eins og í fyrra. Ég á von á að Eyjamenn komi grimmir til leiks að ári og freisti þess að vinna dolluna.

TR-ingar höfnuðu í þriðja sæti, 12 vinningum á eftir Helli. Eins og í fyrri hlutanum vantaði marga sterka skákmenn. Einn stórmeistari, Þröstur Þórhallsson, tefldi með sveitinni í seinni hlutanum og enginn í fyrri hlutanum. Auk þess tefldu hvorki Héðinn Steingrímsson, en hann tók Cappelle le Grande skákmótið framyfir, né Arnar Gunnarsson með sveitinni í síðari hlutanum og reyndar tefldi Héðinn ekkert með félaginu og Arnar tefldi aðeins eina skák. Ætli TR að blanda sér í baráttuna um titilinn gengur ekki að lykilmenn sitji heima.

Skákfélag Akureyrar hafnaði í 4. sæti og Haukar í fimmta sæti. B-sveit SA stóð sig frábærlega, spútníklið keppninnar" og hafnaði í sjötta sæti og sigraði því "b-keppnina" .  

TG og TR-b féllu. Mikill óstöðuleiki einkenndi TG eins og oft áður og var nokkuð sérkennilegt að sjá t.d Jón Þór Bergþórsson. tefla á fyrsta borði gegn TV en hann hann tefldi á fimmta borði gegn Helli. TR-b leið fyrir það hvað illa gekk að manna a-sveitina og fellur því eftir stutta viðdvöld í fyrstu deild.

Fjölnismenn unnu í 2. deild en Hellir-b sótti hart að þeim í lokaumferðunum og hafnaði í 2. sæti.  TG-b féll rétt eins og a-sveitin og KR-ingar fylgdu þeim niður um deild.  Ég hafði reyndar spáð því Haukar-b féllu en þeir bitu í skjaldarrendur í seinni hlutanum og höfnuðu í 5. sæti.

Skagamenn unnu sigur í þriðju deild eftir frábæran endasprett og fylgdu hinir síkátu biskupar þeim upp eftir harða rimmu við Helli-c og er sá þetta ritar ákaflega vinsæll meðal biskupana eftir að hafa tapað úrslitaskák um hvort Hellir-c eða biskuparnir færu upp. Í hvert skipti í gær þegar hinir færeysku meðlimir biskupana sáu mig fögnuðu þeir mér mikið!  C-sveitir Hauka og SA féllu niður.  

D-sveit TR og b-sveit Reykjanesbæjar unnu sig upp í 3. deild.

Aðstaðan á mótsstað var mjög góð í Rimaskóla og ekki síðri en í MH. Röggsamur yfirdómari Haraldur Baldursson minnti menn stöðugt á að slökkva á gemsum en með misjöfnum árangri en eitthvað var um að menn töpuðu skákum þegar síminn hringdi. Til dæmis tapaði einn skákmannanna þegar hann fékk SMS og annar þegar vekjarklukkan, sem var vitlaust stillt hringdi!  Það þarf kannski að setja upp málmleitarlið á skákstaði!

Verðlaunaafhendingin fór fram í Faxafeni og var mikil og skemmtileg stemming á staðnum, þótt menn væru misánægðir með uppskeruna.   

Það verður örugglega hart barist í haust en þegar í gær heyrði ég að Eyjamenn ætli sér stóra hluti að ári. TR-ingar eru til alls líklegir nái þeir að draga sína menn að skákborðinu og Fjölnismenn geta komið sterkir inn.  

Nánari úrslit og stöðu má finna á Skák.is og heimasíðu Skáksambands Íslands.

Það verður gaman í haust!

Gunnar Björnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Til hamingju Gunnar ! Ég reikna með að þú axlir ábyrgð af tapinu í síðustu umferð og teflir í 3 deild næst - og hleypir "saklausum" félögum þínum í b-liðið.

Hrannar Björn Arnarsson, 5.3.2007 kl. 19:41

2 Smámynd: Gunnar Björnsson

Takk Hrannar.

Ert þú ekki frekar sekur þar semþú gafst ekki kost á þér!

Annars er ég orðinn svo lélegur að þú ert örugglega á leiðinni upp fyrir mig stigalega, eða réttara sagt, ég á leiðinni niður fyrir þig!

Kveðja,

Gunnar

Gunnar Björnsson, 5.3.2007 kl. 20:02

3 Smámynd: Gunnar Björnsson

Þakka þér fyrir Benni!

Gunnar Björnsson, 5.3.2007 kl. 22:27

4 identicon

Til hamingju Gunni ég veit hvað þú hefur lagt á þig fyrrir Helli.

Kveðja Eyjólfur

Eyjólfur Ármannsson "Dr Glámur" (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 11:32

5 Smámynd: Gunnar Björnsson

Þakka þér fyrir Eyjólfur!

Gunnar Björnsson, 8.3.2007 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband