9.4.2007 | 20:31
Skemmtilegu Kaupþingsmóti lokið
Tilgangur Kaupþingsmóts Hellis og TR var að gefa mönnum tækifæri á að krækja sér í áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Það tókst nú rétt eins og í fyrra þegar Sigurður Daði Sigfússon krækti sér í áfanga en nú var það Ingvar Þór Jóhannesson sem náði áfanga. Ingvar er ekki alveg ótengdur styrktaðilanum en faðir hans hefur verið starfsmaður Kaupþings og fyrirrennara hans um langt árabil!
Frammistaða, hins 13 ára gamla, Hjörvars Steins, var athyglisverð en hann fékk 50% vinningshlutfall, þrátt fyrir að vera stigalægstur keppenda, og var jafn skoska stórmeistaranum Colin McNab.
Fjöllum lauslega um mótin. Byrjum á stórmeistaraflokki en þar var lokastaðan sem hér segir:
1. SM Normunds Miezis, Lettlandi, 7,5 v. af 9
2. SM Aloyzas Kveynis, Litháen, 6,5 v.
3. AM Emil Hermansson, Svíþjóð, 5,5 v.
4.-6. AM Stefán Kristjánsson, AM Bragi Þorfinnsson og SM John Shaw, Skotlandi, 4,5 v.
7. FM Róbert Harðarson 4 v.
8.-9. Guðmundur Kjartansson og AM Jón Viktor Gunnarsson 3,5 v.
10. FM Björn Þorfinnsson 1,5 v.
Miezis vann fremur öruggan sigur og hækkar um heil 17 stig fyrir frammistöðu sína. Sigur hans var aldrei í hættu. Íslensku alþjóðlegu meistararnir hefði mátt ganga betur. Bragi hækkar þó á stigum en Stefán og Jón Viktor lækka.
Frammistaða Róbert og Guðmundar var góð og hækka báðir töluvert. Sá fyrrnefndi byrjaði vel en gekk ekki vel í lokin. Björn Þorfinnsson átti hræðilegt mót en hann var einn skipuleggjanda mótsins og e.t.v. er það ekki góð latína að biðja skipuleggja mót og taka þátt í þeim.
Lokastaðan í meistaraflokki var:
1. AM Robert Bellin, Englandi, 7,5 v. af 9
2. FM Ingvar Þór Jóhannesson 6,5 v.
3. AM Charles Lamoureux, Frakklandi, 5,5 v.
4. FM Snorri G. Bergsson 5 v.
5.-7 Hjörvar Steinn Grétarsson, FM Sigurður Daði Sigfússon og SM Colin McNab, Skotlandi, 4,5 v.
8. FM Sigurbjörn Björnsson 4 v.
9. Heimir Ásgeirsson 2,5 v.
10. Kazimierz Olszynski, Póllandi 0,5 v.
Robert Bellin vann öruggan sigur í flokknum og virtist í fantaformi. Bellin er af sömu kynslóð og Miles, Nunn og Speelman og er þrautþjálfaður skákmaður sem m.a. hefur sigrað á nokkrum sterkum skákmótum.
Um árangur Ingvars þarf ekki að ræða frekar. Hann var frábær og fátt gleður mótshaldara en þegar áfangar koma í hús. Ingvar byrjaði með látum, hafði 4,5 vinning eftir 5 umferðir en gerði jafntefli í lokaumferðunum fjórum. Hann hækkar um heil 30 stig!
Snorri tefli einnig vel og var um tíma í áfangasénum en tap gegn Hjörvari í 7. umferð gerði út um vonir hans. Hann hækkar um níu stig.
Sigurður Daði og Sigubjörn geta báðir betur og ætluðu sér án efa meira. Heimir getur þokkalega vel við unað en fyrirfram gat hann búist við erfiðu móti.
Árangur Hjörvars var afar góður og sannaði að hann ætti fullt erindi á slíkt alþjóðlegt skákmót. Í fyrra nýtti tækifærið vel og enn betur nú. Kaupþing hefur ákveðið að styðja og styrkja Hjörvar til að vera enn betri skákmann. Þess má geta að Hjörvars fermdist í dag!
Kazimierz mætti ekki í 3 síðustu umferðirnar. Engar skýringar gaf hann og ekki náðist í hann í síma, SMS eða tölvupósti. Afar slæmt þegar skákmenn hætta í mótum og sérstaklega þegar það er gert án allra skýringa.
Lokastaðan í kvennaflokki:
1.-2. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Izabelle Lamoureux 2,5 v.
3. Elsa María Þorfinnsdóttir 1 v.
4. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 0 v.
Mótshaldarar ákváðu með stuttum fyrirvara að bæta við kvennaflokki þar sem kona eins keppendans í meistaraflokki tók þátt og vitað var að hún væri skákkona. Hún var til í lítið og stutt mót!
Izabelle sigraði á mótinu ásamt Hallgerði Helgu sem sýndi að árangur hennar á Íslandsmóti kvenna var alls engin tilviljun en þar hafnaði hún í 3. sæti.
Elsa og Jóhanna höfnuðu í 3. og 4. sæti og eru ásamt Hallgerði Helgu og líka Sigríði Björg Helgadóttur líklegar til að skipa ólympíulið landans á næstu árum. Vonandi verður hægt að halda kvennaflokk samhliða á komandi árum.
Kaupþingi þakka mótshaldarar stuðninginn og þá sérstaklega útibúinu í Mjódd. Skáksambandið fær einnig þakkir fyrir sinn stuðning.
Keppendur fá þakkir fyrir skemmtilegt mót!
Sjáumst á næsta ári!
Athugasemdir
Þú meinar, að Kaz "mætti EKKI" í síðustu þrjár, e rþað ekki? Já, er þetta ekki í annað skiptið í röð sem Kaz hættir í móti án skýringa.
Venjulega þýðir svona lagað keppnisbann.
Snorri Bergz, 10.4.2007 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.