Hvað eiga pólskur innflytjandi, spænskur bankastarfsmaður og egypskur kennari sameiginlegt?

Hjörvar Steinn GrétarssonÁ morgun, miðvikudaginn 20.júní ,kl. 17.00, hefst Fiskmarkaðsmót Taflfélagsins Hellis í húsakynnum Skáksambands Íslands, Faxafeni 12. Mótið er sérstaklega skemmtilegt fyrir þær sakir að áhrif alþjóðavæðingar íslensks samfélags eru afar greinileg á keppendalistanum!

Lög FIDE, alþjóðlega Skáksambandsins, kveða á um það að til þess að mót geti talist alþjóðlegt mót og þannig gefið möguleika á áföngum að alþjóðlegum titlum þá verður 1/3 keppenda að vera af erlendu bergi brotnir. Að þessu sinni vill svo skemmtilega til að þrír "útlendinganna", Pólverjinn Andrzej Misiuga, Spánverjinn Jorge Fonseca og Egyptinn Omar Salama eru allir búsettir hér á landi og er slíkt algjört einsdæmi í alþjóðlegu skákmótahaldi hérlendis. Eini aðkomumaðurinn er egypski alþjóðlegi meistarinn Sarwat Walaa en hann er jafnframt stigahæsti skákmaður mótsins.

Fyrir heimavarnarliðinu, sem reyndar hefur aldrei verið jafn erfitt að skilgreina, fara ungi alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson og hinn þaulreyndi alþjóðlegi meistari Sævar Bjarnason sem er sá Íslendingur sem hefur teflt langflestar kappskákir. Sævar hefur á sínum ferli sigrað alla íslensku stórmeistaranna en ánægjan af því að bæta í höfðuðleðrasafnið fer, að því er virðist, aðeins vaxandi. Augu margra skákáhugamanna munu beinast að hinum 15 ára gamla Hjörvari Steini Grétarssyni en hann náði nýverið frábærum árangri á alþjóðlegu skákmóti í Ungverjalandi og mun án efa freista þess að halda þeirri velgengni áfram. Aðrir keppendur eru FIDE-meistararnir Ingvar Þór Jóhannesson, Björn Þorfinnsson (bróðir Braga) og kvennastórmeistarinn Lenka Ptacknikova. Ingvar og Björn hafa báðir náð tveimur áföngum að alþjóðlegum meistaratitli og má vænta þess að þeir leggi allt í sölurnar til að klófesta þriðja og síðasta áfangann á þessu móti. Lenka er  langsterkasta skákkona landsins en hún er auk þess eiginkona Omars Salama sem einnig tekur þátt í mótinu. Það verður því boðið upp á bræðra- og hjónavíg að Faxafeni 12 næstu daga.

Fyrsta umferð hefst kl. 17.00 að Faxafeni 12 og munu eftirtaldir skákmenn mætast:

Hjörvar Steinn Grétarsson - Björn Þorfinnsson
Omar Salama - Andrzej Misiuga
Lenka Ptacknikova - Jose Fonseca
IM Bragi Þorfinnsson - IM Sævar Bjarnason
Ingvar Þór Jóhannesson - IM Sarwat Walaa

Keppendalistinn:

 

Nr. Titill    Nafn    Land    StigFélag
1AMSarwat Walaa EGY2397 
2AMBragi Þorfinnsson ISL2384Hellir
3FMBjörn Þorfinnsson ISL2348Hellir
4FMIngvar Þór JóhannessonISL2299Hellir
5KSMLenka PtácníkováISL2290Hellir
6AMSævar BjarnasonISL2262TV
7 Omar SalamaEGY2194Hellir
8 Hjörvar Steinn Grétarsson ISL2156Hellir
9 Andrzej Misiuga POL2153TR
10 Jorge Fonseca  ESP2085 


Skákmótinu verður framhaldið kl. 17.00 næstu vikuna og er aðgangur ókeypis í boði Fiskmarkaðs Íslands.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband