Færsluflokkur: Skák

Siggi Ísmaður og Grænlandslandmám.

Mynd yfir Tasiilaq

Á nýársdag var stórgóður þáttur um Sigurð Pétursson, nánar tiltekið Sigga Ísman, á Ríkissjónvarpinu.  Ég naut þeirrar ánægju að kynnast Sigga eitlítið á Grænlandsmóti Hróksins sem fram fór sl. sumar í Tasilaq á austurströnds Grænlands.  Siggi er einn mesti "orginal" maður sem ég hef nokkurn tíma og ógleymanlegt að kynnast þessum manni.  Ég hef löngum ætlað að skrifa smá ferðasögu frá Grænlandi og hér er hana að finna í stuttu máli.  

Ferðin til Grænlands var reyndar hið mesta ævintýri og ein skemmtilegasta skákutanlandsferð sem ég hef farið í og kom mér verulega á óvart.  Kúltúrinn er auðvitað allt annar en hér og eftir mína dvöl þarna vil ég ráðleggja öllum að fara til Grænlands a.m.k einu sinni á lífsleiðinni.   

Þegar komið var til Kulusuk fórum við niður á höfn þar sem Siggi tók á móti okkur og sigldi með okkur til Tasiilaq en um er að ræða u.þ.b. tveggja tíma siglingu.  Eftir þá siglingu finnst manni Jökulsárlónið ósköp lítið og ómerkilegt en á siglingunni mátti sjá ísjaka af öllum stærðum og gerðum.  Sjá t.d. myndasyrpu á heimasíðu Hróksins frá ferðinni.  

Upplifunin í  Tasiilaq var sérstök.  Bærin allur er nánast í brekku og flatlendi nánast ekkert.  Litadýrð húsanna var mikil en fólkið þarna er indælt.   Fátækt og atvinnuleysi er mikið.  Nokkrum sinnum á sólarhringi byrjuðu svo hundar bæjarins nánast að ýlfa allir sem einn og var nokkuð magnað að heyra.   

Um skákmótið vil ég sem minnst tala um enda frammistaða mín ekki til að hrópa húrra fyrir.   Henrik Danielsen vann nokkuð öruggan sigur.  Vel var staðið að mótshaldinu að hálfu Hróksmanna. 

Á eina flatlendisblett bæjarins var svo fótboltavöllur.  Reyndar ekki grasvöllur heldur moldarvöllur enda gróður þarna nánast enginn.  Undirritaður var settur í markið vopnaður vinnuvettlingum.  Að sögn þeirra sem best þekkja hafa jafn góð markmannstilþrif ekki sést síðan Predrag nokkur tók markið í lok fyrsta Grænlandsmótið og lét markvörðurinn ekki moldina aftra sér frá því skutla sér á alla kanta.

Fljótlega náðum við 2-0 forystu en þá fór heldur að syrta í álinn.  Í ljós kom að innfæddir höfðu miklu betra úthald en gestirnir enda bærinn allur í stórri brekku og heimamenn því í úrvalsformi en sama mátti ekki segja um gestina sem fara allar sínar ferðir í bíl.   Þess má geta að ég fékk strengi bæði á fram- og afturkálfa eftir ferðina enda barinn á efstur í efstu brekku!

Heimamenn náðu að jafna 2-2 en Máni Hrafnsson náði að setja sigurmarkið í uppbótartíma en dómgæslan var í öruggum höndum Róberts Harðarsonar!   Reyndar er upplifði ég þarna í fyrsta skipti að sjá dómara tala í GSM-síma í miðjum leik!  Kannski að fá ráðgjöf frá Gylfa Orra?Wink

Að loknu móti lentum við nokkrir í því að vera skyldir eftir aukanótt í Kulusuk.  Það kom ekki að sök því íslenskur ferðafrömuður Jóhann að nafni tók okkur í sína umsjón og eftir ferð í Kaupfélagið þar sem nauðsynjar voru keyptar væsti ekki um og þessi aukadagur reyndist vera hinn skemmtilegasti!

Þegar ljóst var að við kæmumst ekki heim þurfti ég að hringja í frúna og biðja henni að koma þeim skilaboðum á framfæri að ég kæmist ekki til vinnu fyrr en degi síðar en áætlað var.  Slæmt GSM-samband var í bænum og var ég kominn upp á hæsta tind í bænum í hávaðaroki og þurfti að beina símanum í allar áttir áður en mér tókst loks að ná sambandi heim og koma skilaboðunum framfæri.  Örugglega verið nokkuð fyndin sjón.   

Hróksmönnum vil ég þakka kærlega fyrir frábæran viðurgjörning og sérstakar þakkir fær auðvitað Hrafn forseti sem á mikinn heiður skilinn fyrir skáklandnámið á Grænlandi.  Sjálfur stefni ég ótrauður á þátttöku í ár!

Að lokum læt ég hér með fylgja með hlekk þar sem finna má nokkur gullkorn Ísmannsins.   

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband