Færsluflokkur: Skák

Barist á Kaupþingsmóti

Róbert Harðarson og Guðmundur KjartanssonÍ gær fór fram þriðja umferð Kaupþingsmóts Hellis og TR.  Fljótt sömdu þeir um skiptan hlut ofurbloggarinn Snorri G. Bergsson og Sigurður Daði Sigfússon, sigurvegari KB banka mótsins í fyrra (en mótið hefur skipt um nafn eins og bankinn!) en í öðrum skákum var berist lengur.  Baltarnir tveir Miezis og Kveynis leiða í stórmeistaraflokki en Englendingurinn Bellin í meistaraflokki.

Reyndar virðist stórmeistaraflokkurinn ætlast að þróast sérkennilega.  Tveir keppendur með fullt hús en svo er helmingur keppenda í 3.-7. sæti með 1,5 vinning!  Ólíklegt er að stórmeistaraáfangi náist úr þessu en til þess þarf 7 vinninga og því 4,5 vinning í síðustu fimm skákunum.

Róbert og Guðmundur hafa þó möguleika á áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en til þess þarf 5 vinninga.  

Ingvar Þór JóhannessonÍ meistaraflokki vann Bellin Heimi Ásgeirsson en öðrum skákum lauk með jafntefli.   Ingvar Þór Jóhannesson er annar með 2,5 vinning og hefur teflt geysivel, sigraði m.a. skoska stórmeistarann Colin McNab í annarri umferð.  Sigurður Daði og Snorri hafa 2 vinninga.  Í meistaraflokki þarf 6,5 vinning til að ná áfanga og því hafa þremenningarnir allir enn möguleika gangi þeim vel í lokaátökunum.

Nokkrar skemmtileg atvik hafa gerst.  Einn keppandi fann ekki "happapennann" í fyrstu umferð, sem merktur var Kaupþingi (eða KB banka).  Í ljós kom að penninn var kominn í hendur bankastjórans, sem tók hann til að skrifa undir samninginn við Hjörvar!  Bankastjórinn skilaði pennanum og keppandinn tók gleði sína á ný!

Svo verð ég birta samtal milli tveggja skoskra skákmanna sem átti sér stað eftir fyrstu umferð.  McNab var þá nýbúinn að gera jafntefli við Hjörvar Stein, þar hann hafði tapað tafl um tíma, en Shaw tapaði fyrir honum í fyrra.  

Samtalið var talað með ekta skoskum hreim eins og maður heyrir í Taggart-þáttunum:

Shaw: "How did you do?"
McNab: "I  drew"
Shaw: "Bloody hell, fantastic job"

Eftir fyrstu umferð talaði ég nokkuð við Bellin.  Hann furðaði sig á því hversu illa hefur gengið fyrir Íslendinga að eignast tíunda stórmeistarann (þá undanskiljum við þá sem urðu stórmeistarar áður en þeir gerðu íslenskir ríkisborgarar!)

Bellin taldi að íslensk skákhreyfing ætti að tengja betur gömlu meistaranna við þá ungu.  Athygliverð hugmynd.  Væri gömlu meistarnir tilbúnir að hitta þá yngri nokkrum sinnum á ári og ausa úr viskubrunnum sínum?  Það hefðu allir gott að því, bæði þeir og yngri meistarnir, sem hafa fengið fá tækifæri til að hitta hina eldri nema þá helst á einsdagshraðskákmótum.

Jæja, fjórða umferð hefst kl. 10 í skákhöllinni Faxafeni.  Þá mætast í stórmeistaraflokki m.a. Guðmundur-Kveynis og Miezis-Stefán.  Við vonum að íslensku meistarnir nái að leggja stein í götu Baltanna svo þeir stingi ekki allt of mikið af!

Í  meistaraflokki mætast m.a. Sigurður Daði-Bellin og Sigurbjörn-Ingvar Þór.

Hvet skákáhugamenn til að fjölmenna á skákstað.  Ekkert annað þarfara að gera á svo "löngum" degi!


Frábært framtak Kaupþings!

hjorvar1Tímamótasamningur var gerður í dag fyrir íslenska skákhreyfingu. Í fyrsta skipti í íslenskri skáksögu gerir íslenskt fyrirtæki, nánar tiltekið Kaupþing, samstarfssamning við íslenska skákmeistara þ.e. við Hjörvar Stein Grétarsson og Taflfélagið Helilir sem gerir félaginu mögulegt að stórauka þjálfun Hjörvars og þátttöku hans í skákmótum hérlendis sem og erlendis.   Í kvöld hófst svo Kaupþingsmótið í skák og gerði m.a.Hjörvar jafntefli við skoska stórmeistarann Colin McNab.   

Það er von samningsaðila að samningur þessi geri leið Hjörvars enn greiðari að æðri metorðum skáklistarinnar. Hjörvar hefur náð eftirtektarverðum árangri á síðustu árum þrátt fyrir ungan aldur. Hann er margfaldur Íslands- og norðurlandameistari og sá yngsti í íslenskri skáksögu sem teflt hefur í landsliðsflokki Skákþings Íslands.

Bankinn er aðalstyrktaraðili Kaupþingsmótsins í skák sem hófst í dag í skákhöllinni í Faxafeni 12.   Mótið er samstarfsverkefni Hellis og TR.  Þetta er í annað skipti sem mótið fer fram.  Í fyrra var mótið 10 manna mót og þá eingöngu haldið af Hellismönnum.   Ákveðið var að feta í fótskör íslenskra bankamanna og  tvöfalda mótið af stærð á milli ára!  Nú er teflt í tveimur flokkum, stórmeistaraflokki og meistaraflokki og hefur keppendafjöldi því tvöfaldast.   

Stórmeistarinn McNab, sem er stighæstur keppenda í meistaraflokki og doktor í stærðfræði, mátti þakka fyrir jafntefli gegn Hjörvari, sem er stigalægstur keppenda.  Til gamans má geta að McNab tefldi á fyrsta alþjóðlega móti Hellis í október 1993 en þá var Hjörvar enn í vöggu! 

McNab er annar keppenda, sem einnig tóku þátt í alþjóðlega mótinu 1993, en hinn er ofurbloggarinn Snorri G. Bergsson.

John Shaw og Björn ÞorfinnssonMeðal annarra úrslita má nefna að í stórmeistaraflokki mátti hinn skoski stórmeistarinn John Shaw teljast heppinn að ná jafntefli við Björn Þorfinnsson, sem er helsti hvatamaður þessa móts og reyndar starfsmaður Kaupþings!  Bróðir Björns, Bragi, sigraði Jón Viktor Gunnarsson.

Í meistaraflokki má nefna sigur Ingvars Þór Jóhannessonar á  Kazimierz Olszynski, sem er eitursterkur Pólverji, sem er vinnur hérlendis þessi misseri.  

Önnur úrslit má finna á Skák.is og á heimasíðu mótsins, þar sem finna má öll úrslit og einnig fjölda mynda!

Tvær umferðir verða tefldar í dag, skírdag.  Klukkan 10 hefst önnur umferð og klukkan 17 hefst þriðja umferð.  Mótshaldarar hvetja skákáhugamenn til að mæta á skákstað!

 

 


mbl.is Ungur skákmaður styrktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþingsmótið að hefjast

Kaupþingsmótið í skák fer fram um páskana nánar tiltekið 4.-9. apríl.  Mikið stress hefur verið á okkur sem að mótinu standa síðustu daga enda mörg atriði sem þarf að passa upp á. Í dag vorum við t.d. stressaðir að sumir keppendur hefðu ekki skilað sér en sem betur var það misskilingur!  

Í kvöld fór fram töfludráttur og ljóst hverjir mætast í fyrstu umferð.

Rétt er þakka Kaupþingi fyrir stuðning bankans við mótið og þá sérstaklega útibúi bankans í Mjódd og Fannari útibússtjóra sem hefur reynst ómetanlegur stuðningsmaður.  

Ekki kæmi það mér á óvart þótt bankinn ætti enn eftir að auka stuðning sinn við skáklistina á öflugan hátt enda hefur bankinn og fyrirrennerar hans verið þekktir fyrir myndarlegan stuðning við skákina í áranna rás.   

Hægt verður að fylgjast með úrslitum á heimasíðu mótsins og á Skák.is.  

Auk þess verður reglulegar fluttar fréttir af gangi mála á bloggsíðu minni um alla páskahelgina.

Fylgist með!


Hellir Íslandsmeistari skákfélaga!

Íslandsmeistarar Hellis 2007Hellismenn urðu Íslandsmeistarar skákfélaga en mótinu lauk um helgina. Hellismenn fengu 47 vinninga í 56 skákum sem er einn besti árangur sem íslenskt skákfélag hefur náð í keppninni. Aðeins ein skák tapaðist hjá Helli sem er mjög líklega met. Það sem gerir árangur Hellisbúa þó enn glæsilegri er að liðið stillti upp "aðeins" 2-3 stórmeisturum á meðan helstu keppinautarnir, Taflfélag Vestmannaeyja, stilltu ávallt upp sex stórmeisturum.  

Eftir fyrri hlutann hafði Hellir 5 vinninga forskot en viðbúið var að forystan myndi minnka þar sem Hellir átti mun erfiðari andstæðinga eftir í síðari hlutanum en Eyjamenn sem varð og raunin.  Hellir vann TR 6-2 í 5. umferð og á sama tíma unnu Eyjamenn b-sveit TR 7½-½ og forystan því búin að minnka í 3½ vinning. Í sjöttu og næstsíðustu umferð unnu Eyjamenn vængbrotið lið Taflfélags Garðabæjar á meðan Hellismenn unnu Akureyringa 5-3. Forystan var því eingöngu ½ vinningur fyrir lokaumferðina.  

Hellismenn voru bjarsýnir enda töldu þeir að hefðu þeir forystu fyrir lokaumferðina myndi þetta hafast. Hellismenn voru fyrirfram taldir sterkari á 1., 2. 7. og 8. borði og þar komu líka 3½ vinningur í hús. Á miðborðunum (3.-6. borð) þar sem Eyjamenn voru sterkari höfðu Hellismenn einnig betur, fengu 2½ vinning og öruggur sigur vannst 6-2.

Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Hellis en félagið vann áður 1999, 2000 og 2005. Hellir er nú næstsigursælasta lið sögunnar, fór nú uppfyrir Hrókinn, sem var þrefaldur meistari.  TR hefur auðvitað unnið langoftast.  Samkvæmt bók Þráins Guðmundssonar um sögu SÍ, sem nær til ársins 1995, hefur það aðeins einu sinni gerst að lið hafi fengið fleiri vinninga en Hellir nú að það var TR tímabilið 1980-81 en sveit TR fékk þá 47½ vinning.  Ég hef ekki lagst þá í sagnfræðivinnu að skoða árin eftir 1995 en sjálfsagt hefur Hrókurinn verið á svipuðum slóðum þegar hann titilinn þrjú ár í röð.  

Allir Hellisbúar stóðu sig vel og hækka nánast allir á stigum. Frábær liðsheild skóp sigur Hellis en menn voru mjög vel einbeittir og sigurviljinn og sjálfstraustið voru hvort tveggja í botni. Hellir stillti nú upp tveimur erlendum stórmeisturum enda mönnum ljóst að það þyrfti ef hafa ætti Eyjamenn undir. Báðir smellpössuðu þeir inn í hópinn og var t.d. barátta Kalods aðdáunarverð.

Atlaga Eyjamanna mistókst nú annað árið í röð þrátt fyrir að hafa sterkasta liðið á pappírnum rétt eins og í fyrra. Ég á von á að Eyjamenn komi grimmir til leiks að ári og freisti þess að vinna dolluna.

TR-ingar höfnuðu í þriðja sæti, 12 vinningum á eftir Helli. Eins og í fyrri hlutanum vantaði marga sterka skákmenn. Einn stórmeistari, Þröstur Þórhallsson, tefldi með sveitinni í seinni hlutanum og enginn í fyrri hlutanum. Auk þess tefldu hvorki Héðinn Steingrímsson, en hann tók Cappelle le Grande skákmótið framyfir, né Arnar Gunnarsson með sveitinni í síðari hlutanum og reyndar tefldi Héðinn ekkert með félaginu og Arnar tefldi aðeins eina skák. Ætli TR að blanda sér í baráttuna um titilinn gengur ekki að lykilmenn sitji heima.

Skákfélag Akureyrar hafnaði í 4. sæti og Haukar í fimmta sæti. B-sveit SA stóð sig frábærlega, spútníklið keppninnar" og hafnaði í sjötta sæti og sigraði því "b-keppnina" .  

TG og TR-b féllu. Mikill óstöðuleiki einkenndi TG eins og oft áður og var nokkuð sérkennilegt að sjá t.d Jón Þór Bergþórsson. tefla á fyrsta borði gegn TV en hann hann tefldi á fimmta borði gegn Helli. TR-b leið fyrir það hvað illa gekk að manna a-sveitina og fellur því eftir stutta viðdvöld í fyrstu deild.

Fjölnismenn unnu í 2. deild en Hellir-b sótti hart að þeim í lokaumferðunum og hafnaði í 2. sæti.  TG-b féll rétt eins og a-sveitin og KR-ingar fylgdu þeim niður um deild.  Ég hafði reyndar spáð því Haukar-b féllu en þeir bitu í skjaldarrendur í seinni hlutanum og höfnuðu í 5. sæti.

Skagamenn unnu sigur í þriðju deild eftir frábæran endasprett og fylgdu hinir síkátu biskupar þeim upp eftir harða rimmu við Helli-c og er sá þetta ritar ákaflega vinsæll meðal biskupana eftir að hafa tapað úrslitaskák um hvort Hellir-c eða biskuparnir færu upp. Í hvert skipti í gær þegar hinir færeysku meðlimir biskupana sáu mig fögnuðu þeir mér mikið!  C-sveitir Hauka og SA féllu niður.  

D-sveit TR og b-sveit Reykjanesbæjar unnu sig upp í 3. deild.

Aðstaðan á mótsstað var mjög góð í Rimaskóla og ekki síðri en í MH. Röggsamur yfirdómari Haraldur Baldursson minnti menn stöðugt á að slökkva á gemsum en með misjöfnum árangri en eitthvað var um að menn töpuðu skákum þegar síminn hringdi. Til dæmis tapaði einn skákmannanna þegar hann fékk SMS og annar þegar vekjarklukkan, sem var vitlaust stillt hringdi!  Það þarf kannski að setja upp málmleitarlið á skákstaði!

Verðlaunaafhendingin fór fram í Faxafeni og var mikil og skemmtileg stemming á staðnum, þótt menn væru misánægðir með uppskeruna.   

Það verður örugglega hart barist í haust en þegar í gær heyrði ég að Eyjamenn ætli sér stóra hluti að ári. TR-ingar eru til alls líklegir nái þeir að draga sína menn að skákborðinu og Fjölnismenn geta komið sterkir inn.  

Nánari úrslit og stöðu má finna á Skák.is og heimasíðu Skáksambands Íslands.

Það verður gaman í haust!

Gunnar Björnsson


Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram um helgina

Seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram 2. og 3. mars nk.  Staða Hellis er vænleg í fyrstu deild en Vestmannaeyingar eygja von nái þeir góðum úrslitum. TR er öruggt með þriðja sætið en gæti náð öðru sæti þróist úrslit þeim í vil. B-lið SA og  TG eru í mikilli fallbaráttu og staða b-liðs TR er afar slæm.  

1. deild

Staðan í fyrstu deild:

  1. Hellir 30 v.
  2. TV 25 v.
  3. TR-a 21,5 v.
  4. SA-a 14,5 v.
  5. Haukar 12,5 v.
  6. SA-b 11 v.
  7. TG 9 v.
  8. TR-b 4,5 v

Árangur Hellis var frábær í fyrri hlutanum en sveitin hlaut 30,5 vinning í 32 skákum, sem er sennilega Íslandsmet. Ekki einu sinni Hróksverjar náðu víðlíka árangri. Árangur Hellis kom nokkuð á óvart í fyrri hlutanum enda höfðu margir afskrifað Hellisbúa með þeim fleygu orðum "Hellir sokkinn í sæ". og töldu að Eyjamenn og TR-ingar myndu berjast um sigurinn. En Hellismenn skriðu úr helli sínum, ósokknir.  

Eyjamenn munu án efa mæta með sína fjölþjóðasveit. Væntanlega munu fjórir erlendir stórmeistarar tefla fyrir þá auk Helga og Henriks sem þýðir að þeir tefla fram sex stórmeisturum. Hellismenn treysta venju samkvæmt mikið á sína FIDE-meistara og aldrei þessu vant eru Hellismenn virkustu skákmenn landsins en oft hefur æfingaleysi loðað við Hellisbúa en svo er ekki nú. Forysta Hellis á Eyjamenn eru 5 vinningar en líklegt er að Eyjaskeggjar dragi á Helli í 5. og 6. umferð þegar Hellismenn mæta TR og SA en Eyjamenn TR-b og TG.

Hellir og TV mætast svo í hreinni úrslitaviðureign á laugardag. Spurning er bara hver verður forysta Hellis fyrir lokaumferðina, ef hún verður enn til staðar.. Spennan gæti því orðið óvenju mikil en langt er síðan að hrein úrslitaviðureign hefur farið fram í lokaumferðinni. Jafnvel þarf að leita aftur til þess er TG varð Íslandsmeistari árið 1992.  

Mér finnst staða TR-b of slæm til þess að sveitin get  bjargað sér frá falli þótt aldrei megi vanmeta Fena-risann. Ég spái að SA-b, sem reyndar kom á óvart í fyrri hlutanum með góðri frammistöðu fylgi þeim niður í 2. deild og TG-ingar, bjargi sér eins og venjulega frá falli

Spá ritstjóra (í sviga er spáin frá því fyrir keppni):

  1. (3) Hellir
  2. (1) TV
  3. (2) TR
  4. (5) SA
  5. (4) Haukar
  6. (7) TG
  7. (8) SA-b
  8. (6) TR-b

2. deild

Staðan:

  1. Fjölnir20 v.
  2. Reykjanesbær 15,5 v.
  3. Bolungarvík 15,5 v.
  4. Hellir-b 15 v.
  5. Haukar-b 9,5 v.
  6. KR 9 v.
  7. Selfoss 8 v.
  8. TG-b 4 v.

Í annarri deild eru Fjölnismenn nánast gulltryggðir með sigur. Ég spái því að Hellir-b fylgi þeim upp þrátt fyrir að vera í fjórða sæti en Hellir á eftir töluvert veikari andstæðinga en Reyknesingar og Bolvíkingar en öll toppliðin 3 eiga eftir að mætast í innbyrðisviðureignum á meðan Hellismenn hafa mætt öllum toppsveitunum. 

Fallsætið virðist bíða TG-b en erfitt er að spá hverjir fylgi þeim niður. Ég hef trú á því að Selfyssingar bjargi sér og líkast munu annaðhvort KR-ingar eða Haukar falla. Ég spái þeim síðarnefndu falli en það er samt bara 50-50 dæmi   

Spá ritstjóra:

  1. (1) Fjölnir
  2. (2) Hellir-b
  3. (4) Bolungarvík
  4. (7) Reykjanesbær
  5. (3) Selfoss
  6. (5) KR
  7. (6) Haukar-b
  8. (8) TG-b

3. deild:

Staðan:

  1. (5) Hellir-c 18,5 v.
  2. (1) Kátu biskuparnir 17,5 v.
  3. (3) TV-b 16,5 v.
  4. (4) Akranes 16,5 v.
  5. (2) TR-c 11 v.
  6. (8) Dalvík 9,5 v.
  7. (7) SA-c 5,5 v.
  8. (6) Haukar-c 2 v.

Fjögur lið berjast um sigurinn í 3. deild. Ég tel líklegast að Kátu biskuparnir vinni deildina enda með sterkasta liðið. Eyjamenn eiga eftir veikari mótherja en Hellir-c og Skagamenn og spái ég því að þeir fylgi biskupunum upp. Ómögulegt er þó að segja til um hvað gerist og líklegt að þarna geti spennan orðið mikil og líklegt að úrslitin ráðist á síðustu metrunum.  

Fall virðist bíða SA-c og Hauka-c nema að einhver kraftaverk gerist. 

Spá ritstjóra:

  1. (1) Kátu biskuparnir
  2. (3) TV-b
  3. (5) Hellir-c
  4. (4) Akranes
  5. (2) TR-c
  6. (8) Dalvík
  7. (7) SA-c
  8. (6) Haukar-c

4. deild

Staða efstu liða:

  • 1.-2. Reykjanes-b og TR-d 18 v.
  • 3.-4. Hellir-d og Austurland 16 v.
  • 5. Fjölnir-b 15,5 v.
  • 6.-10. Kátu biskuparnir-b, Snæfellsbær, SA-d, KR-b og Selfoss-b 14,5 v.

Fjórða deildin er óvenjuleg að þessu sinni þar sem engin "ofursveit" er með. Toppsveitirnar mætast í 5. umferð, þ.e. Reyknesingar og TR-ingar annars vegar og Hellir-d og Austfirðingar hinsvegar. Ég átta mig engan veginn á því hvernig þetta fer enda hef ég fremur takmarkaðar upplýsingar um styrkleika sveitanna. Ég ætla samt að spá því að toppliðin tvö, Reykjanes-b og TR-d fari upp. Einnig má benda á að lokastaðan í fjórðu deild getur orðið nokkuð tilviljanakennd, t.d. vinnist einhver viðureign stórt í lokaumferðinni gæti það dugað til þess að flytjast upp um deild.

Spá ritstjóra um efstu lið:

  1. TR-d
  2. Reykjanes-b
  3. Austurland
  4. Hellir-b
  5. Fjölnir-b

Að lokum

Rétt er að árétta að þessi spár og pistill er fyrst og fremst settur fram til gamans!

Rétt er svo að minna á nokkra praktíska hluti. 

  • Tímamörkin er 1½ klst. á skákina auk 30 sekúnda á leik. Enginn viðbótartími bætist við eftir fjörtíu leiki.
  • Slökkva þarf á GSM-síma. Hringi hann þýðir það umsvifalaust tap
  • Teflt er í Rimaskóla í Grafarvogi

Ég hlakka mikið til enda er síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga einn skemmtilegasti skákviðburður ársins. Gera má ráð fyrir spennu í öllum deildum bæði á toppi sem botni og líklegt að úrslit ráðist ekki fyrr en á lokamínútum.

Reynt verður að uppfæra Skák.is eins fljótt og auðið er eftir hverja umferð.  .  

Ég hlakka til helgarinnar!  Megi besta liðið vinna!

Heimasíða mótsins

Gunnar Björnsson

 


Björn skákmeistari Hellis í sjöunda sinn!

Björn og BragiBjörn Þorfinnsson er engum líkur en hann hampaði meistaratitli Hellis í sjöunda sinn er hann lagði Sigurbjörn Björnsson í sjöundu og síðustu umferð, sem fram fór í kvöld.  Sigurbjörn, sem hefur verið afar sigursæll, síðustu misseri, hafði forystu allt mótið, nema eftir lokaumferðina.  Sigurbjörn verður því enn að bíða eftir meistaratitli Hellis.

Sigurbjörn, Bragi Þorfinnsson og Ingvar Þór Jóhannesson urðu í 2.-4. sæti.    

Í umferð kvöldsins gerðist eitt sérkennilegasta atvik sem hefur gerst á íslensku skákmóti.  Skákstjóri hafði vart sett klukkurnar í gang þegar sími Snorra G. Bergsson hringdi.   Ekki einu sinni andstæðingur hans, Bragi Þorfinnsson, var sestur við skákborðið og aðeins frakki Snorra var á stólbakinu með símanum í en Snorri hafði brugðið sér fram til að ræða málin við gesti og gangandi á meðan hann beið eftir Braga.   

Reglur FIDE er skýrar.  Skákin er töpuð og fer þessi skák væntanlega í sögubækurnar sem stysta skák sögunnar en!................stóra spurningin er.  Á að reikna þessa skák til skákstiga?

Samkvæmt reglum FIDE á ekki að reikna ótefldar skákir en............er þessi skák ótefld?  Báðir keppendur voru sannanlega á staðnum og hefði Snorri t.d. haft hvítt en ekki svart hefði hann væntanlega verið búinn að leika.    

Ég er hreinlega ekki viss hvernig skuli meðhöndla þetta og hef þegar sent út fyrirspurn til FIDE til að fá þeirra álit/úrskurð um málið.  

Þess má geta að sá sem hringdi í Snorra er einn af helstu skákfrömuðum íslenskrar skákhreyfingar!

Nánari úrslit og skákir má nálgast á Skák.is og heimasíðu Hellis.

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnumW00t

Mynd: Bræðurnir Björn og Bragi Þorfinnssynir 


Sigurbjörn efstur fyrir lokaumferð Meistaramóts Hellis

SigurbjörnSigurbjörn Björnsson leiðir með hálfum vinningi á Björn Þorfinnsson fyrir lokaumferð Meistaramóts Hellis, eftir jafntefli við Davíð Ólafsson í sjöttu og næstsíðustu umferð, sem fram fór í gærkveldi í mjög svo skrautlegri skák þar sem þeir höfðu unnið til skiptis.

Ég missti reyndar af skákinni og umferðinni vegna veikinda.  Ég hef heyrt í bæði Sigurbirni og Davíð í dag og segjast þeir hafa haft unnið!   Ég hlakka til að skoða skákina en mér skilst að Sigurbjörn hafi leikið alvarlega af sér í 13. leik og fengið tapað tafl, Davíð hafi svo aftur klúðrað en fengið síðar aftur unnið tafl.  Sigurbjörn hafði svo jafnvel unnið tafl í lokastöðunni!

Björn Þorfinnsson vann Helga Brynjarsson og er einn í öðru sæti.  Þeir tveir eru því einu mennirnir sem geta hampað titlinum.  Björn yrði þá meistari í sjöunda sinn en Sigurbjörn í fyrsta sinn.  Athyglisvert er reyndar að Björn hefur reyndar "bara" sigrað á mótinu þrisvar sinnum og Sigurbjörn tvisvar.  Sigurbjörn var þá ekki í Helli og í bæði skiptin fékk Björn titilinn!

Nú er hins vegar Sigurbjörn í klúbbnum og getur loks hampað titlinum.  

Björn hefur verið fremur heppinn með andstæðinga og eru meðalstig andstæðinga hans 2045 skákstig á meðan meðalstig andstæðinga Sigurbjarnar eru 2196 skákstig.  Sigurbjörn er nú 19 skákstig í plús á meðan Björn er með eitt stig í mínus.

Í 3.-6. sæti eru Ingvar Þór Jóhannesson, Snorri G. Bergsson, sem gerðu stutt jafntefli í gær, og eru því úr leik um sigur í mótinu, Davíð og Bragi Þorfinnsson.

Í kvöld fer fram frestuð skák Hjörvar Steins Grétarsson, nýkrýnds norðurlandameistara í skólaskák, og Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur.  

Gott sjónvarpsviðtal við Hjörvar Stein má finna hér.   

Nánari úrslit og skákir má nálgast á Skák.is og heimasíðu Hellis


Hjörvar norðurlandameistari!

Hjörvar Steinn Grétarsson, sigurvegari yngri flokksHellisbúinn, Hjörvar Steinn Grétarsson, varð í dag norðurlandameistari í skólaskák!  Þetta er í þriðja skipti sem Hjörvar verður norðalandameistari!

Við í Taflfélaginu Helli erum ákaflega stoltir af okkar manni!

Sjá nánar úrslit á Skák.is og heimasíðu SÍ.

Til hamingju Hjörvar! 


mbl.is Hjörvar Norðurlandameistari í skólaskák
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skákakademía Reykjavíkur stofnuð!

VilhjalmurSamkvæmt hádegisfréttum RÚV í dag er búið að stofna Skákakademíu Reykjavíkur.  Samkvæmt viðtali við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra, er akedemínunni ætlað að auka skákkennslu í skólum, og síðast en ekki síst að hafa Reykjavíkurskákmótið árlega.  Gott framtak!  

Og eftir 10 ár á svo Reykjavík að vera skákhöfuðborg heims, hvorki meira né minna!

Við forráðamenn taflfélaganna í Reykjavíkur bíðum spenntir eftir næstu skrefum enda ánægjulegt þegar menn eru svo stórhuga.    

Meðfylgjandi er greinargerð, sem lögð var fyrir borgarráð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sigurbjörn með fullt hús á Meistaramóti Hellis

SigurbjörnHellisbúinn, Sigurbjörn Björnsson, hélt áfram sigurgöngu sinni á Meistaramóti Hellis er hann lagði félaga sinn úr Helli, Ingvar Þór Jóhannesson í fimmtu umferð, sem fram fór í kvöld.   Sigurbjörn hefur verið í miklu stöði en eins og kunnugt sigraði hann á Skákþingi Reykjavíkur í janúar.  Í 2.-5. sæti eru Ingvar Þór, Snorri Bergsson, Davíð Ólafsson og hinn ungi og efnilegi skákmaður Helgi Brynjarsson, sem teflir ef geysimiklu öryggi þessa dagana.   

Draumfærir Ingvars rættust því ekki en hann dreymdi fyrir mótið að hann ynni Sigurbjörn.  Í draumnum lék Ingvar reyndar 1. e4 en lék svo 1. d4 í skákinni sjálfri.  Kannski hefði verið betra að fylgja draumnum út í ystu æsar!

Snorri tefldi mjög góða skák þar sem hann fórnaði drottningunni gegn Jóhanni Ingvasyni.   Davíð þurfti töluvert að hafa fyrir sigrinum á Þóri Benediktssyni.  Helgi Brynjarsson sigraði annan ungan og efnilegan Dag Andra Friðgeirsson. 

Einni skák var frestað eða skák Björns Þorfinnssonar og Ingvar Ásbjörnssonar vegna veikinda þess síðarnefnda.  Skákin verður tefld á morgun og að henni lokinni verður birt pörun 6. umferðar.

Annars uppgötvaðist það í dag að afi þeirra Þorfinnsbræðra var samstúdent afa mínum úr MR árið 1918 svo heimurinn er enn að smækka! 

Skákir og úrslit má finna á Skák.is og heimasíðu Hellis


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband