Færsluflokkur: Skák

Hvað eiga pólskur innflytjandi, spænskur bankastarfsmaður og egypskur kennari sameiginlegt?

Hjörvar Steinn GrétarssonÁ morgun, miðvikudaginn 20.júní ,kl. 17.00, hefst Fiskmarkaðsmót Taflfélagsins Hellis í húsakynnum Skáksambands Íslands, Faxafeni 12. Mótið er sérstaklega skemmtilegt fyrir þær sakir að áhrif alþjóðavæðingar íslensks samfélags eru afar greinileg á keppendalistanum!

Lög FIDE, alþjóðlega Skáksambandsins, kveða á um það að til þess að mót geti talist alþjóðlegt mót og þannig gefið möguleika á áföngum að alþjóðlegum titlum þá verður 1/3 keppenda að vera af erlendu bergi brotnir. Að þessu sinni vill svo skemmtilega til að þrír "útlendinganna", Pólverjinn Andrzej Misiuga, Spánverjinn Jorge Fonseca og Egyptinn Omar Salama eru allir búsettir hér á landi og er slíkt algjört einsdæmi í alþjóðlegu skákmótahaldi hérlendis. Eini aðkomumaðurinn er egypski alþjóðlegi meistarinn Sarwat Walaa en hann er jafnframt stigahæsti skákmaður mótsins.

Fyrir heimavarnarliðinu, sem reyndar hefur aldrei verið jafn erfitt að skilgreina, fara ungi alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson og hinn þaulreyndi alþjóðlegi meistari Sævar Bjarnason sem er sá Íslendingur sem hefur teflt langflestar kappskákir. Sævar hefur á sínum ferli sigrað alla íslensku stórmeistaranna en ánægjan af því að bæta í höfðuðleðrasafnið fer, að því er virðist, aðeins vaxandi. Augu margra skákáhugamanna munu beinast að hinum 15 ára gamla Hjörvari Steini Grétarssyni en hann náði nýverið frábærum árangri á alþjóðlegu skákmóti í Ungverjalandi og mun án efa freista þess að halda þeirri velgengni áfram. Aðrir keppendur eru FIDE-meistararnir Ingvar Þór Jóhannesson, Björn Þorfinnsson (bróðir Braga) og kvennastórmeistarinn Lenka Ptacknikova. Ingvar og Björn hafa báðir náð tveimur áföngum að alþjóðlegum meistaratitli og má vænta þess að þeir leggi allt í sölurnar til að klófesta þriðja og síðasta áfangann á þessu móti. Lenka er  langsterkasta skákkona landsins en hún er auk þess eiginkona Omars Salama sem einnig tekur þátt í mótinu. Það verður því boðið upp á bræðra- og hjónavíg að Faxafeni 12 næstu daga.

Fyrsta umferð hefst kl. 17.00 að Faxafeni 12 og munu eftirtaldir skákmenn mætast:

Hjörvar Steinn Grétarsson - Björn Þorfinnsson
Omar Salama - Andrzej Misiuga
Lenka Ptacknikova - Jose Fonseca
IM Bragi Þorfinnsson - IM Sævar Bjarnason
Ingvar Þór Jóhannesson - IM Sarwat Walaa

Keppendalistinn:

 

Nr. Titill    Nafn    Land    StigFélag
1AMSarwat Walaa EGY2397 
2AMBragi Þorfinnsson ISL2384Hellir
3FMBjörn Þorfinnsson ISL2348Hellir
4FMIngvar Þór JóhannessonISL2299Hellir
5KSMLenka PtácníkováISL2290Hellir
6AMSævar BjarnasonISL2262TV
7 Omar SalamaEGY2194Hellir
8 Hjörvar Steinn Grétarsson ISL2156Hellir
9 Andrzej Misiuga POL2153TR
10 Jorge Fonseca  ESP2085 


Skákmótinu verður framhaldið kl. 17.00 næstu vikuna og er aðgangur ókeypis í boði Fiskmarkaðs Íslands.




Góð byrjun hjá íslensku keppendunum!

Ingvar Þór JóhannessonMjög góð byrjun hjá íslensku keppendunum og Ingvar virðist funheitur og til alls líklegur.

Auk þess var Róbert afar óheppinn að tapa fyrir Miezis, sigurvegara Kaupþingsmótsins.

Önnur umferð byrjar kl. 17.  Skora á skákáhugamenn að fjölmenna!


mbl.is Ingvar Þór sigraði stórmeistara í fyrstu umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegu Kaupþingsmóti lokið

Ingvar Þór Jóhannesson

Tilgangur Kaupþingsmóts Hellis og TR var að gefa mönnum tækifæri á að krækja sér í áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.  Það tókst nú rétt eins og í fyrra þegar Sigurður Daði Sigfússon krækti sér í áfanga en nú var það Ingvar Þór Jóhannesson sem náði áfanga.  Ingvar er ekki alveg ótengdur styrktaðilanum en faðir hans hefur verið starfsmaður Kaupþings og fyrirrennara hans um langt árabil!

Frammistaða, hins 13 ára gamla, Hjörvars Steins, var athyglisverð en hann fékk 50% vinningshlutfall, þrátt fyrir að vera stigalægstur keppenda, og var jafn skoska stórmeistaranum Colin McNab.  

Fjöllum lauslega um mótin.  Byrjum á stórmeistaraflokki en þar var lokastaðan sem hér segir: 

1. SM Normunds Miezis, Lettlandi, 7,5 v. af 9
2. SM Aloyzas Kveynis, Litháen, 6,5 v.
3. AM Emil Hermansson, Svíþjóð, 5,5 v.
4.-6. AM Stefán Kristjánsson, AM Bragi Þorfinnsson og SM John Shaw, Skotlandi, 4,5 v.
7. FM Róbert Harðarson 4 v.
8.-9. Guðmundur Kjartansson og AM Jón Viktor Gunnarsson 3,5 v.
10. FM Björn Þorfinnsson 1,5 v.

Miezis vann fremur öruggan sigur og hækkar um heil 17 stig fyrir frammistöðu sína.   Sigur hans var aldrei í hættu. Íslensku alþjóðlegu meistararnir hefði mátt ganga betur.  Bragi hækkar þó á stigum en Stefán og Jón Viktor lækka. 

Frammistaða Róbert og Guðmundar var góð og hækka báðir töluvert.  Sá fyrrnefndi byrjaði vel en gekk ekki vel í lokin.  Björn Þorfinnsson átti hræðilegt mót en hann var einn skipuleggjanda mótsins og e.t.v. er það ekki góð latína að biðja skipuleggja mót og taka þátt í þeim.  

Lokastaðan í meistaraflokki var:

1. AM Robert Bellin, Englandi, 7,5 v. af 9Miezis_Bellin
2. FM  Ingvar Þór Jóhannesson 6,5 v.
3. AM Charles Lamoureux, Frakklandi, 5,5 v.
4. FM Snorri G. Bergsson 5 v.
5.-7 Hjörvar Steinn Grétarsson, FM Sigurður Daði Sigfússon og SM Colin McNab, Skotlandi, 4,5 v.
8. FM Sigurbjörn Björnsson 4 v.
9. Heimir Ásgeirsson 2,5 v.
10. Kazimierz Olszynski, Póllandi 0,5 v.

Robert Bellin vann öruggan sigur í flokknum og virtist í fantaformi.  Bellin er af sömu kynslóð og Miles, Nunn og Speelman og er þrautþjálfaður skákmaður sem m.a. hefur sigrað á nokkrum sterkum skákmótum. 

Um árangur Ingvars þarf ekki að ræða frekar.  Hann var frábær og fátt gleður mótshaldara en þegar áfangar koma í hús.  Ingvar byrjaði með látum, hafði 4,5 vinning eftir 5 umferðir en gerði jafntefli í lokaumferðunum fjórum.  Hann hækkar um heil 30 stig!

Snorri tefli einnig vel og var um tíma í áfangasénum en tap gegn Hjörvari í 7. umferð gerði út um vonir hans. Hann hækkar um níu stig.

Sigurður Daði og Sigubjörn geta báðir betur og ætluðu sér án efa meira.  Heimir getur þokkalega vel við unað en fyrirfram gat hann búist við erfiðu móti.

Hjörvar Steinn GrétarssonÁrangur Hjörvars var afar góður og sannaði að hann ætti fullt erindi á slíkt alþjóðlegt skákmót.  Í fyrra nýtti tækifærið vel og enn betur nú.  Kaupþing hefur ákveðið að styðja og styrkja Hjörvar til að vera enn betri skákmann.  Þess má geta að Hjörvars fermdist í dag!

Kazimierz mætti ekki í 3 síðustu umferðirnar.  Engar skýringar gaf hann og ekki náðist í hann í síma, SMS eða tölvupósti.  Afar slæmt þegar skákmenn hætta í mótum og sérstaklega þegar það er gert án allra skýringa.

Lokastaðan í kvennaflokki:

1.-2. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Izabelle Lamoureux 2,5 v.
3. Elsa María Þorfinnsdóttir 1 v.
4. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 0 v.

Mótshaldarar ákváðu með stuttum fyrirvara að bæta við kvennaflokki þar sem kona eins keppendans í meistaraflokki tók þátt og vitað var að hún væri skákkona.  Hún var til í lítið og stutt mót!

Izabelle sigraði á mótinu ásamt Hallgerði Helgu sem sýndi að árangur hennar á Íslandsmóti kvenna var alls engin tilviljun en þar hafnaði hún í 3. sæti.  

Elsa og Jóhanna höfnuðu í 3. og 4. sæti og eru ásamt Hallgerði Helgu og líka Sigríði Björg Helgadóttur líklegar til að skipa ólympíulið landans á næstu árum.   Vonandi verður hægt að halda kvennaflokk samhliða á komandi árum.

Kaupþingi þakka mótshaldarar stuðninginn og þá sérstaklega útibúinu í Mjódd.  Skáksambandið fær einnig þakkir fyrir sinn stuðning.  

Keppendur fá þakkir fyrir skemmtilegt mót! 

Sjáumst á næsta ári!


Til hamingju Ingvar...........glæsilegt!

Vel að verki staði.  Svo er bara að taka lokaáfangann á Reykjavík International!

mbl.is Náði áfanga að alþjóðlegum meistaratitli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokkalegur..........

Ingvar Þór JóhannessonIngvar náði áfanga á Ístaksmóti Hróksins fyrir nokkrum árum síðan.  Nái Ingvar jafntefli gegn ofurbloggaranum Snorra G. Bergssyni í lokaumferð Kaupþingsmóts Hellis og TR nær hann sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. 

Lokaumferðin hefst kl. 12 en teflt er í skákhöllinni, Faxafeni 12.  Boðið er upp á kaffi og með því!

Ég mun svo fjalla meira um mótið annað kvöld! 


mbl.is Ingvar Þór vantar hálfan vinning í titiláfanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþingsmótið í skák: Ingvar í góðum málum

Ingvar Þór og BellinIngvar Þór Jóhannesson gerði örjafntefli við Bellin í sjöunda umferð Kaupþingsmótsins, sem fram fór fyrr í dag.  Með því nálgast Ingvar enn sinn annan áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en hann þarf einn vinning í lokaumferðunum tveimur.

Þrír aðrir skákmenn hafa möguleika á áfanga.  Róbert og Guðmundur á áfanga að alþjóðlegum meistaratitli og Svíinn Emil Hermansson að stórmeistaraáfanga.  ÞremenningarnirHjörvar Steinn Grétarsson þurfa allir að vinna báðar skákirnar.

Hinn ungi og efnilegi skákmaður Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði Snorra G. Bergsson, sem var hinn vígalegasti með týrólahatt, og er nú kominn með 3 vinninga en Hjörvar mætir einmitt Ingvari í áttundu og næstsíðustu umferð, sem hefst kl. 17.Snorri G. Bergsson

Hvet skákáhugamenn til að  fjölmenna í skákhöllina, Faxafeni 12!

 

 

 

 


Konur tefla á Kaupþingsmóti

Johanna_ElsaKaupþingsmótið Hellis og TR hélt áfram í dag og í dag hófst kvennaflokkur mótsins. Ingvar Þór er annar í meistarfaflokki eftir örjafntefli við Sigurðu Daða.  Snorri er þriðji eftir sigur á Frakkanum Lamouroux þar sem Snorri beitti "rakbragðinu" sem Frakkinn hafði enginn svör við.  Blóðug skák!  Erlendir meistarar eru í þremur efstu sætunum í stórmeistaraflokki. Elsa María er efst í kvennaflokki.

Annars kom hugmyndin með kvennaflokkinn upp með skömmum fyrirvara.  Þannig var mál með vexti að kona franska skákmannins Charles Lamouroux, Izabelle, kom með honum til landisns.  Hún er prýðisgóð skákkona og var  tilbúin, aðspurð, í stutt skákmót við þrjár ungar og efnilegar íslenskur skákkonur. Lamouroux og Hallgerður

 

Ingvar stendur best að vígi að þeim sem möguleika á áfanga að meistaratitli.  Hann þarf 1,5 vinning í lokaumferðunum þremur en Snorri þarf 2,5 vinning.

Guðmundur þarf 2 vinninga og Róbert 2,5 vinning en þeir tefla  í stórmeistaraflokki og eiga því eftir að mæta erfiðari andstæðingum en Ingvar og Snorri.  Auk þess hefur Svínn Emil Hermansson möguleika á stórmeistaraáfanga vinni hann allar 3 skákirnar sem eftir eru.

Sjöunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 10.  Teflt er í skákhöllinni Faxafeni 12.

Jon Viktor_GudmundurNánari upplýsingar má nálgast á Skák.is og heimasíðu mótsins.


Gott gengi á Kaupþingi

Björn Þorfinnsson og Guðmundur KjartanssonFrammistaða tveggja íslenskra skákmanna hefur vakið athygli á Kaupþingsmótinu, sem fram fer um páska.  Guðmundur Kjartansson er í 3.-4. sæti í stórmeistaraflokki og Ingvar Þór Jóhannesson er í 1.-2. sæti í meistaraflokki.  Báðir hafa þeir prýðismöguleika á að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Gummi hefur 3 vinninga í 5 skákum en í stórmeistaraflokki þarf 5 vinninga til að ná áfanga.  Ingvar hefur 4,5 vinning en í meistaraflokki þarf 6,5 vinning.  Þeir þurfa því 2 vinninga í lokaumferðunum fjórum.  Hvorugur hefur tapað skák. Ekkert er þó gefið í þeim efnum en vonandi að þeir haldi áfram sínu striki. 

Hjörvar Steinn og Siguður DaðiHinn 13 ára, Hjörvar Steinn Grétarsson, hefur ekkert gefið þeim eldri eftir og hefur 2 vinninga þrátt fyrir að vera stigalægstur keppenda og hefur teflt vel.  Gerði í kvöld jafntefli við sigurvegarann frá í fyrra, Sigurð Daða Sigfússon.

Skotunum hefur ekki gengið vel.  Shaw tapaði í dag og hefur enn ekki unnið skák, hafði gert jafntefli í öllum skákunum til þessa.  McNab vann loks og er kominn með helmingsvinningshlutfall í meistaraflokki.

Sjöta umferð fer fram á morgun, laugardag, kl. 17.   Ég vil hvetja skákáhugamenn til að fjölmenna á skákstað.  Boðið er upp á kaffi og með því!


Ingvar Þór með 3,5 vinning að 4 mögulegum á Kaupþingsmótinu

Sigurbjorn_IngvarIngvar Þór Jóhannesson sigraði Sigurbjörn Björnsson í fjórðu umferð meistaraflokks Kaupþingsmótsins.  Ingvar virðist vera í fínu formi og hefur nú 3,5 vinning sem venjulega myndi þýða að hann væri efstur en svo er ekki nú því enski skákmaðurinn Robert Bellin leiðir með fullu húsi eftir sigur á sigurvegara síðasta árs, Sigurðar Daða Sigfússonar, en Daði missti af jafnteflileið í endataflinu.

Ofurbloggarinn Snorri G. Bergsson er svo þriðji,  með 2,5 vinning, en skoski stórmeistarinn Colin McNab slapp úr greipum Snorra og náði jafntefli.

Loks var stöðvuð sigurganga baltensku stórmeistarann Kveynis og Miezis í stórmeistaraflokki en Guðmundur Kjartansson og Stefán Kristjánsson gerðu við þá jafntefli.  Þeir leiða engu að síður með 3,5 vinning en Svíinn, Emil Hermansson, er þriðji með 2,5 vinning.  Guðmundur og Bragi Þorfinnsson hafa 2 vinninga.   

Fimmta umferð, hefst kl. 17 í skáköllinni Faxafeni 12.  Ég hvet skákáhugamenn að fjölmenna á mótsstað!  

Í henni mætast í stórmeistaraflokki m.a. Shaw-Miezis, Kveinys-Hermansson og Stefán og Jón Viktor.

Í meistaraflokki mætast m.a. Bellin-Snorri, Ingvar-Heimir og Hörvar-Sigurður Daði. 

Nánari upplýsingar má nálgast á Skák.is og heimasíðu mótsins


Hrafn hefur hátt á skákmóti

Þessi hrafn var þó ekki jökulsson, heldur svartur á lit og heldur minni en krunkaði hátt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband